146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Há greiðsluþátttaka sjúklinga er ljótur blettur á heilbrigðiskerfinu og tölur sýna að fólk sem býr við slæman efnahag er síður líklegt til að sækja sér læknisþjónustu, svo ekki sé talað um þann skell sem fólk verður fyrir þegar það greinist með illvígan sjúkdóm, verður fyrir tekjumissi og/eða andlegu áfalli. Alþingi samþykkti 2. júní sl. breytingu á lögum um sjúkratryggingar þar sem kveðið var á um grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi á greiðslum sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu. Lögin hefðu átt að öðlast gildi 1. febrúar. Síðan ákváðu stjórnvöld að fresta innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu til 1. maí og ákvörðunin byggðist á því að meiri tíma þyrfti til að undirbúa kerfisbreytinguna, fyrst og fremst vegna ýmissa tæknilegra örðugleika við útfærslu hennar.

Í bráðabirgðaákvæði með lögunum segir að afsláttarstofn miðist við greiðslu sjúkratryggðs fyrir þjónustu síðustu fimm mánuði fyrir gildistöku. Samkvæmt því væri horft á greiðslutímabil sjúklings frá 1. september 2016. Því velti ég fyrir mér hvort ekki sé rétt að horfa eftir sem áður til þessa tímamarks þrátt fyrir seinkun að þetta komist til framkvæmda, þ.e. miða engu að síður við 1. september en ekki aðeins fimm mánuði fyrir það tímamark sem kerfið kemst í gang sem væri þá 1. desember 2016.

Frú forseti. Það er mikilvægt að örðugleikar við að koma nýju greiðsluþátttökukerfi í framkvæmd skerði ekki réttindi og væntingar sjúklinga sem byggja á lögum og yfir höfuð þarf Alþingi ávallt að velta fyrir sér þeim áhrifum sem frestun framkvæmda getur haft á daglegt líf fólks.


Efnisorð er vísa í ræðuna