146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Forseti. Mig langar í upphafi að þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir að benda á hversu örðugt er að fylgjast með umræðum á þingi ofan af þingpöllunum. Það er auðvitað ekki nógu gott og ég tek undir það að bæta þarf aðgengi fólks til að fylgjast með umræðum til að það geti séð af þingpöllum hvað er á dagskrá, hvernig mælendaskráin er og allt þess háttar.

En ég kvaddi mér hljóðs hér í dag til að ræða um skýrslu sem kynnt var í gær um greiningu á þjónustu við flóttafólk og greiningu á stöðu flóttafólks á Íslandi árið 2016. Niðurstöður könnunar sem gerð var á högum og stöðu flóttafólks á Íslandi hafa mjög takmarkað gildi, hefur komið í ljós, vegna þess að svo lítill hluti flóttafólks vildi taka þátt í henni. Svarhlutfall var einungis 15%. Fram kemur að spyrlar hafi mætt tortryggni og jafnvel ótta meðal flóttafólks sem virtist óttast um stöðu sína ef það myndi svara spurningum. Það þurfum við að taka til íhugunar.

Á sama tíma kemur fram í nýrri skýrslu nefndar Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi að orðræða sem ber vitni um kynþáttafordóma hefur aukist á Íslandi.

Ég held að af þessu tvennu sé alveg ljóst að það er mikilvægt að við bætum stöðu flóttafólks á Íslandi og náum betri samfellu þar sem þessi mál heyra undir mörg ráðuneyti. Þess vegna hlakka ég til að kynna mér þessa skýrslu í (Forseti hringir.) enn meiri smáatriðum og þá sérstaklega þann kafla þar sem lagt er til að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd en nýrri stofnun útlendinga- og innflytjendamála verði komið á fót.


Efnisorð er vísa í ræðuna