146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:50]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir svarið, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Já, ég er sammála hv. þingmanni að ég get ekki fallist á að þetta sé hræðsluáróður heldur er hér um að ræða málflutning frá fagaðilum sem byggður er á rannsóknum. Fjöldi hagsmunaaðila á sviði rannsókna og forvarna í okkar góða samfélagi hefur varað við þessu og byggir mál sitt á þekkingu. Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann út í orð landlæknis. Landlæknir er einn af þeim fagaðilum sem varað hefur við samþykkt þessa frumvarps. Hann hefur m.a. talað um að samþykkt þess gæti haft það í för með sér að samfélagslegur kostnaður gæti aukist á bilinu 20–60% eftir því hvaða málaflokka um er að ræða, hvort það er ofbeldi, álag á heilbrigðiskerfið eða aðrir þættir. Er hv. þingmaður sammála landlækni og varnaðarorðum hans?