146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú held ég að allir geti verið sammála því að nýframlögð eigandastefna ríkisins hafi enga framtíðarsýn. Sömuleiðis held ég að allir ættu að geta verið sammála því að það þurfi að endurskoða uppbyggingu bankakerfisins. Ég er mjög til í að ræða það í mun lengra máli við hv. þingmann. En mig langar til að forvitnast um það hvort sú afstaða sem hún rakti hér gefi einhverja ástæðu til að halda að þetta sé ekki eðlilegt skref engu að síður og kannski sem fyrsta skref, að aðskilja fjárfestingar- og viðskiptabanka. Nú eru fyrir því mjög mörg góð rök að þessi aðskilnaður eigi sér stað óháð allri annarri endurskipulagningu bankakerfisins. Mig langaði til að fá hugmyndir hv. þingmanns um það. Og kannski í viðbót: Margar vangaveltur hennar um endurskipulagningu bankakerfisins voru þess eðlis að þær gætu átt jafn vel við um lífeyrissjóðakerfið sem er ekki síður stórt. Ég spyr hvort ekki væri ástæða til að ráðast í sambærilega endurskoðun á því kerfi.