146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:25]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur einnar spurningar. Hefur afstaða Framsóknarflokksins alltaf verið svona skýr eins og hefur komið fram í ræðum þessara tveggja síðustu þingmanna og tilvitnaðri grein í borgarfulltrúann Guðfinnu Guðmundsdóttur? Kann að vera að fulltrúi Framsóknarflokksins í skipulagsnefnd á árabilinu 2006–2010 eigi nú kannski stóran þátt í þeirri stöðu sem upp er komin núna? Látið er í það skína að Framsóknarflokkurinn hafi algerlega hreinan skjöld í þessu máli en svo er ekki, hann hefur nefnilega fortíð í málinu. Ég held að rétt sé að rifja það upp og allir játi syndir sínar í þeim efnum.

Ég verð hins vegar að játa að stundum þegar ég keyri þarna fram hjá finnst mér að þessi barátta sé töpuð. Hins vegar er önnur þverbraut, ég vil ekki kalla þetta neyðarbraut heldur þverbraut. Það er þverbraut sem er í Keflavík sem ekki hefur verið haldið við í mörg ár og er ónothæf. Ég tel miklu nær að einhenda sér í að koma þeirri braut í gagnið. Kann að vera að það þurfi að hefja þá baráttu. Ég mun kannski taka upp þá baráttu síðar en ekki tengja hana þessu máli.