146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[17:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu fyrir að leggja hana fram og lýsi yfir eindregnum stuðningi mínum við hana. Tillagan sem hér liggur fyrir okkur um rafræna birtingu málaskráa og gagna ráðuneyta rímar mjög vel við grunnstefnu Pírata sem ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr, með leyfi forseta. Í fyrsta lagi rímar hún vel við grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð. Þar stendur:

Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Vel er hægt að sjá fyrir að með auknum aðgangi að gögnum úr ráðuneytum eigi almenningur töluvert auðveldara með að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og því sem er að gerast þar. Eins telja Píratar að gagnsæi eigi mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvarðanatöku. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna. Til þess að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til þess að taka ákvarðanir, en Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafa verið teknar.

Loks rímar þetta mjög vel við 5. gr. grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi þar sem stendur, með leyfi forseta:

Takmörkun á frelsi fólks til þess að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.

Eins og heyrist rímar þessi þingsályktunartillaga afskaplega vel við grunnstefnu Pírata, enda trúum við á að sem mest aðgengi almennings að gögnum leiði til sem bestrar ákvarðanatöku og leiði líka til bætts lýðræðis í landinu og í heiminum í heild. Því er mjög mikilvægt að við finnum okkur miðlægan og áreiðanlegan gagnagrunn þar sem við getum treyst á öryggi gagnanna sem um ræðir, að þar sé ekkert búið að eiga við þau og þetta séu hin opinberu og raunverulegu skjöl sem við erum að skoða hverju sinni.

Svo langar mig að minna þingheim á 15. gr. nýju stjórnarskrárinnar, sem hefur ekki enn litið dagsins ljós, um upplýsingarétt. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum. Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.“

Efni þessarar þingsályktunartillögu rímar ágætlega við þær takmarkanir sem fram eru teknar, bæði í stjórnarskrá og í grunnstefnu Pírata. Eins og fram hefur komið í framsögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur er þingsályktunartillagan liður í því að hvetja stjórnvöld til þess að framfylgja þeim lögum sem nú þegar gilda í landinu, en það eru upplýsingalög. Í 1. gr. upplýsingalaga sjáum við hvert markmið þeirra laga er, en það er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og traust almennings á stjórnsýslunni.

Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu, þ.e. ef hún verður samþykkt og henni framfylgt, verði mikilvægt skref stigið í átt að því að vinna að markmiðunum sem finna má í upplýsingalögum.

Ég ætla svo að lokum að leyfa mér að lesa úr þeirri grein sem þingsályktunartillagan byggir á, en það er 13. gr. upplýsingalaga er snýr að birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna, samantektum um mikilvæg verkefni eða útgáfu annarra gagna. Stjórnvöld skulu vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Hið sama á við um gagnagrunna og skrár. Þess skal gætt að birting gangi ekki gegn einka- eða almannahagsmunum […] Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um það hvernig birtingu upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. skuli hagað, þar á meðal um áfanga og tímafresti sem stjórnvöldum eru gefnir til að uppfylla tiltekin markmið og hvernig og hvar upplýsingar skuli birtar […] Tryggja skal, eftir því sem kostur er, jafnt aðgengi almennings að birtum upplýsingum og að birting sé samræmd á milli stjórnvalda.“

Að lokum langar mig að leggja sérstaka áherslu á síðasta atriði þessarar greinar:

„Ráðherra skal jafnframt setja reglur sem tryggja, eftir því sem kostur er, að birting upplýsinga nýtist fötluðum til jafns við aðra.“

Vildi ég að lokum minna hæstv. ráðherra á að í þessari þingsályktunartillögu, verði hún samþykkt og taki ráðherra hana til meðferðar, er lagt til að ráðherra setji reglugerð sem kveði á um hvernig birtingu þessara upplýsinga skuli háttað og hvernig tryggður skuli viðeigandi vettvangur og aðbúnaður til að veita aðgang að upplýsingunum. Ég vil hnykkja á því að sérstaklega verði hafður í huga aðgangur fatlaðs fólks að þeim upplýsingum, hver svo sem fötlun fólksins kann að vera, af því að það eru margvíslegar aðgangshindranir sem fatlað fólk býr við þegar kemur að aðgengi að upplýsingum. Því mætti skoða auðlæsilegt letur en einnig aðgengi fyrir sjónskerta og mögulega líka aðgengi að alla vega einhverjum hluta gagnanna á auðveldara og aðgengilegra máli heldur en stofnanir nota alla jafna.

Þetta langaði mig að minna á að lokum, að tryggt verði aðgengi að þessum gögnum í gagnagrunninum og að við höfum það í huga strax frá upphafi. Sú sem hér stendur er mikill stuðningsmaður þess að við byrjum alla lagasetningu og alla vinnu hins opinbera á því að hugsa fyrst um mannréttindi borganna og hvernig þau skuli tryggð við lagasetningu og framkvæmd og hefjumst svo handa við að smíða eitthvað í kringum það.