146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Talsvert hefur verið fjallað um þetta málefni að undanförnu og fyrir liggja nokkrar skýrslur og greinargerðir eins og hv. þingmaður fór svo ágætlega yfir hér að framan. Þær greiningar hafa dregið fram skýra þörf fyrir gerð skipulags á haf- og strandsvæðum og setningu laga um slíkt. Ég hyggst leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi á þessu þingi.

Fyrst er spurt hvert viðhorf ráðherra sé til þess að sömu lög gildi um skipulag sveitarfélaga á landi og í fjörðum. Því er til að svara að lögsögumörk sveitarfélaga miðast við netlög sem eru samkvæmt skilgreiningu 115 metrar frá stórstraumsfjöruborði og skipulagslögin fjalla um skipulag á því svæði sem tilheyrir lögsögu sveitarfélaganna. Þar er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi þá skyldu að annast skipulagsgerð hvert á sínu svæði.

Haf- og strandsvæði fyrir utan netlög, svokallaður hafalmenningur, eru á forræði ríkisins og ekki háð neinum einkaeignarrétti. Í ljósi þess að haf- og strandsvæðin utan netlaga eru á forræði ríkisins var gert ráð fyrir, í gerð frumvarpsins sem ég nefndi hér áðan, að ríkið stæði að gerð skipulags á þessum svæðum en í ljósi hagsmuna sveitarfélaga var jafnframt tekin sú ákvörðun að þau hefðu aðkomu að ákvörðunum um nýtingu þessara svæða með þátttöku í svæðisráðum. Samkvæmt umræddu frumvarpi bera þau ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að gæta heildarhagsmuna almennings við ákvörðun um nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða. Í því felst að auðlindir verði nýttar á hagkvæman og sjálfbæran hátt og það er líka mjög mikilvægt að hafðir séu í huga hagsmunir íbúa nærliggjandi sveitarfélaga, m.a. í tengslum við atvinnu- og byggðaþróun. Því ætti það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir að virka vel en þar er gert ráð fyrir sameiginlegri ákvörðunartöku ríkis og sveitarfélaga í gegnum svæðisráðin.

Ef nýta ætti sama fyrirkomulag og skipulagslög kveða á um, þ.e. skipulagsáætlanir sveitarfélaga, þyrfti að færa út lögsögumörk sveitarfélaga. Það að sveitarfélögin myndu annast skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum myndi væntanlega leiða til þess að hagsmunir einstakra sveitarfélaga yrðu ríkjandi við skipulagsgerðina en eins og ég nefndi hér fyrr þá tel ég að það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir, með sameiginlegri ákvörðunartöku ríkis og sveitarfélaga í gegnum þessi svæðisráð, muni virka vel þegar horft er til heildarhagsmuna.

Næst spyr hv. þingmaður hver eigi að hafa skipulagsvald yfir haf- og strandsvæðum. Ég fór yfir það áðan að ríkið er með forræði á haf- og strandsvæðum utan netlaga og því er ákvörðunarvaldið um nýtingu og vernd á þeim svæðum þar. En þetta snýr bæði að heildarhagsmunum almennings og hagsmunum einstakra sveitarfélaga og því tel ég réttast að ríkið beri meginábyrgðina og að sveitarfélögin taki þátt í ákvörðunartöku í gegnum áðurnefnd svæðisráð.

Þá er líka spurt hve langt skipulagsvaldið eigi að ná, hvað sé eðlilegt í því. Staðan er sú í dag að lögsögumörk sveitarfélaga ná út að mörkum netlaga. Ef við ætlum að færa það til þarfnast það væntanlega heildstæðrar umræðu.

Spurt er um stefnu ráðherra varðandi leyfisveitingar, úthlutun leyfa til að nýta haf- og strandsvæði, og eftirlit með því. Í frumvarpinu er sú skylda lögð á leyfisveitendur að þeir sjái til þess að útgáfa leyfa verði í samræmi við gildandi strandsvæðisskipulag. Þá verður rekstraraðilum einnig gert skylt að hafa sína starfsemi og framkvæmdir í samræmi við strandsvæðisskipulag. Skipulagsstofnun mun birta á heimasíðu sinni heildarlista yfir útgefin leyfi á haf- og strandsvæðum.

Varðandi mína persónulegu stefnu hvað leyfisveitingar varðar þá sjáum við að þetta er brýnt umræðuefni nú þegar laxeldið er komið og þá stöndum við frammi fyrir því að sumir fóru snemma í röðina og fengu leyfi og við vitum ekki hvað gerist út af því að burðarþol fjarðanna er auðvitað takmarkað. Hvað verður um þá sem sækja um leyfi þegar firðirnir eru fullnýttir? Það er vandamál sem við verðum að komast fyrir, það má ekki verða „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

Ég kemst ekki yfir þetta allt saman, þetta voru ítarlegar og góðar spurningar. Það var líka verið að spyrja um leyfisveitingar. Það er verið að samræma þá vinnu og það er mjög yfirgripsmikið verk því að þar koma margar stofnanir að, ekki bara hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og við þurfum að nálgast það og vinna heildstætt í stjórnkerfinu.