146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í heimi hækkandi lífaldurs og breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar er mikilvægt að horfa opnum augum á lífeyriskerfið og möguleika þess til að mæta skuldbindingum sínum. Það er ljóst að tæknibreytingar munu gjörbreyta atvinnumarkaðnum. Ekki einungis munu fjölmörg störf hverfa og þó að ljóst sé að önnur ný verði til í mörgum tilfellum spá flestir því að atvinnuþátttaka verði með allt öðrum hætti en hingað til, vinnuvikan muni örugglega styttast. Það er auðvitað samfélagslega mikilvægt að sem flestir verði með einum eða öðrum hætti virkir á vinnumarkaði, en það er viðbúið að það breytist mjög mikið. Grundvallarspurningin er því sú hvort núverandi lífeyrissjóðafyrirkomulag sé lausn til framtíðar eða hvort við þurfum að skoða allt annað kerfi sem mætir þessari nýju framtíð.

Þar er mjög mikilvægt að verkaskipting milli almannatrygginga og lífeyrissjóða sé skýr, m.a. til þess að gulltryggt sé að launafólk hafi sýnilegan hag af því á efri árum að hafa greitt í þessa sameiginlegu sjóði. Það er grundvallaratriði sem ekki má breytast. En til skemmri tíma er nauðsynlegt að aðlaga lífeyrissjóðina að veruleika dagsins. Þar þurfum við náttúrlega að fækka lífeyrissjóðunum, bæði til að styrkja kerfið og gera það gagnsærra og auka líkur á að allir búi við sama kerfi. En við þurfum líka að gera nýjum almennum félagsmönnum kleift að vera virkari þátttakendur í stjórnum og störfum, m.a. til þess að auka gagnsæi og upplýsingagjöf.

Í dag eru einstaklingar almennt betur í stakk búnir til þess að nálgast og vinna úr upplýsingum og tæknin gefur líka möguleika á miklu beinni aðkomu. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því að stjórnir og fulltrúaráð endurspegli sem best félagsmenn jafnt í aldri sem kyni.

Að lokum er ég sammála hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um að það er nauðsynlegt að áhrif almennra sjóðfélaga á fjárfestingarstefnu séu í hávegum höfð, t.d. hvað varðar umhverfisvernd, siðferði og annað.