146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna að sinni. Ég held að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram muni áfram verða til athugunar í umhverfis- og samgöngunefnd, þar á meðal lögfræðilegar hliðar málsins sem hv. þingmaður nefnir hér. Menn þurfa auðvitað að skoða málin í því samhengi, inn í hvaða regluverk málið fer og hverjar forsendur þeirra ákvarðana eru sem þarna liggja til grundvallar.

Mér finnst hins vegar alveg nauðsynlegt að undirstrikað sé, eins og ég gerði hér í fyrra andsvari mínu, að þeir fjármunir sem hér um ræðir hefðu ekki komið til sögunnar og aldrei runnið í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, aldrei. Það var engin ákvörðun um að auka framlög í jöfnunarsjóðinn af neinni annarri ástæðu en þeirri að bæta átti þeim sveitarfélögum tjón sem til kom vegna áhrifa bankaskattsins. Þá horfa menn á það og meta, eins og gert hefur verið í undirbúningi þessa máls, hvar þessi áhrif komu fram. Um önnur atriði sem varða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga er svo sem ekki tilefni til að tala hér, enda er um afar sértækt mál að ræða sem varðar áhrif tiltekinnar lagasetningar. Ef niðurstaðan verður sú að þessum fjármunum verði ráðstafað með einhverjum allt öðrum hætti en lagt var upp með í upphafi hefur það væntanlega einhver áhrif á framtíðarsamskipti ríkis og sveitarfélaga að öðru leyti.