146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir hans ræðu og hugleiðingar um bílastæðagjöldin og til hvers megi nota þau. Ég held að frumvarpið eins og það er úr garði gert sé vandað og þessi umræddu bílastæðagjöld renni nákvæmlega til þess að byggja upp þjónustu sem tengist því að koma akandi á stað og leggja á góðu stæði, geta farið á klósett og hugsanlega leitað húsaskjóls og síðan kannski gengið að því sem á að skoða á þokkalegum göngustíg. Ég held að við deilum ekki um það, ég held að það sé allt saman mjög gott.

Á hinn bóginn var talað um frekari uppbyggingu og hvernig standa ætti að henni. Það er rétt að Viðreisn hefur talað fyrir bílastæðagjöldum í því samhengi. Ég held að þetta útiloki það ekki að menn beiti eftir atvikum gjaldtöku í tengslum við bílastæði til að byggja upp aðstöðu við sjálfa náttúruperluna sem verið er að skoða, en það er auðvitað ekki eiginlegt bílastæðagjald í þeim skilningi sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um að það þarf að afla fjár til að byggja upp innviði og vernda ferðamannastaði.