146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[11:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek áskorun hv. þingmanns mjög alvarlega. Í því eru fólgnir risahagsmunir fyrir okkur Íslendinga að vita um ástand hafsins hverju sinni.

Það eru reyndar vísbendingar um að vistsporið í kringum Ísland sé að batna mjög mikið, m.a. út af ábyrgri fiskveiðistjórn. Ég man eftir mynd sem ég sá hjá Hafrannsóknastofnun. Þar kom fram að árið 2002 var vistsporið mun meira en árið 2014. Það eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Við sjáum aukningu í þorskstofninum en á móti kemur að vísbendingar varðandi álinn eru mjög sterkar. Þess vegna þurfum við heimild í lögum til að banna álaveiðar ef við ætlum að gera það. Ég vil líka vekja athygli á því að það þarf skýra lagaheimild til að takmarka eða banna álaveiðar hér á landi í ám eða netlögum því að það gildir annað þar. Þarna er eignarréttur, nýtingarréttur með öðrum hætti en gildir á hafi úti. Það verður að vera byggt á vísindalegum grunni. Það er í samræmi við okkar almennu stefnu í þeim málum og málaflokkum sem ég ber ábyrgð á.

Hv. þingmaður talaði um plastið og áhrifin á álinn. Við munum skoða það. Ég mun beina þeirri fyrirspurn til Hafró. Það mun koma í ljós í gegnum ráðgjöf þeirra hvernig ástand stofnsins er hér við land. En ég mun fara að ráðgjöf Hafró í þessum málum eins og mörgum öðrum.