146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég skipti um umræðuefni allsnarlega, ég ætlaði að fjalla um umhverfisráðherra og fjarvist hans í gær, en í ljósi þess að hér er verið að tala um 25 ára reglu í framhaldsskólum verð ég að lýsa því yfir að mér blöskrar ýmislegt sem hér hefur verið sagt. Mér blöskrar sú vanþekking sem hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur sýnt að hún hefur á íslensku framhaldsskólakerfi, að það henti ekki fólki á þrítugs- eða fertugsaldri að sækja skóla með yngri nemendum. Þvílíkur þvættingur. Sá sem hér stendur hefur starfað við það í 18 ár að kenna í þremur framhaldsskólum. Tveir þeirra voru iðnskólar, verkmenntaskólar, annar á Sauðárkróki og hinn á Akureyri. (Gripið fram í: Það er svolítið annað í iðnskólum.) Ég kenndi nemendum sögu, þýsku og íslensku. Bestu nemendurnir voru konur og karlar sem voru komin yfir 25 ára aldur. Þetta voru í sumum tilfellum konur sem voru á þeim stað í lífinu að börnin voru hætt að nota bleiur og annað slíkt, komin í skóla, orðin kannski að einhverju leyti sjálfala og sjálfum sér nóg, þær komu inn í skólana og lærðu á bóknámsbrautum það sem þær langaði til að læra. Sama var með karlpeninginn. Sumir þeirra voru reyndar oft og tíðum í iðnnámi, en alls ekki alltaf. Margir þeirra voru á bóknámsbrautum.

Í samtali mínu við aðstoðarskólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, og ég tek það fram að ég hef leyfi hans til þess að vitna í hann hér, kom fram að nemendum hafi verið vísað frá bóknámi í Verkmennaskólanum á Akureyri vegna þess að þeir voru orðnir 25 ára. Punktur. Það er óþolandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)