146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálastefnuna kemur fram, með leyfi forseta:

„… að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnu sinnar ef atburðarásin reynist önnur en efnahagsspáin gerir ráð fyrir.“

Ekki var tími til að fara yfir þjóðhagsforsendur eða efnahagslegar forsendur stefnunnar sem hér er til umræðu, í hv. efnahags- og viðskiptanefnd því að það lá svo mikið á að ljúka við afgreiðslu hennar. Í raun hefur ekki farið fram nægjanleg umræða um þær spár. Við hljótum að hlusta eftir því þegar þessi varnaðarorð eru sett fram. Ég veiti því eftirtekt að í áliti meiri hlutans er talað um mikilvægi fjárfestinga í innviðum, eins og hv. þingmaður gerði í ræðu sinni. Þar er bent á að kanna þurfi til hlítar möguleika á að fjármagna innviði í samstarfi við stofnanafjárfesta, svo sem lífeyrissjóði. (Forseti hringir.) Er það ætlunin, herra forseti, að til þess að komast hjá því að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu í innviðum, sem allir flokkar lofuðu hér fyrir kosningar, eigi að fara út í samstarf við lífeyrissjóði um þá nauðsynlegu fjárfestingu?