146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er einmitt þetta sem við þurfum að taka samtal um í fjárlaganefnd, hvernig við sjáum þetta fyrir okkur varðandi ráðið. Ég geri mér grein fyrir að ekki er hægt að redda öllu sisvona núna. Tíminn er naumur til undirbúnings vegna þeirra aðstæðna sem við bjuggum við eftir kosningar. Það breytir því þó ekki að ekki er gerð tilraun til þess í nefndaráliti að mæta þessu.

Ég tek undir það, með hv. þingmanni, sem kemur fram í nefndarálitinu um þau sjónarmið sem ráða fjárfestingum. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra að það sé að búa í haginn að vanrækja að stórum hluta að fara í innviðauppbyggingu og leggja gríðarlega áherslu á niðurgreiðslu skulda. Ég held að við þurfum að gera hvort tveggja. (Forseti hringir.) Við komumst ekki hjá því. Kostnaðurinn vex ár frá ári þegar kemur að innviðunum.