146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:48]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Fjármálastefnan sem er til umræðu hér er tilraun til þess að uppfylla ákvæði laga um opinber fjármál. Í þeim lögum er skýrt hvað skuli felast í slíkri fjármálastefnu og þessi fjármálastefna uppfyllir það ekki. Það vantar stefnumörkun um þróun útgjalda, um skatta og aðra tekjuöflun hins opinbera. Eins og fram kemur í nefndaráliti 3. minni hluta virðist það eina sem rakið er um þessi atriði vera að gert er ráð fyrir því að þróun útgjalda muni fylgja þróun vergrar landsframleiðslu, sem er ekki stefnumörkun sem slík, það er bara fullyrðing um það hvernig hægt væri að hafa hlutina. Stefnumörkun væri miklu víðtækari í eðli sínu. Vandinn við þessa nálgun er að hún er ekki pólitísk heldur tæknileg. Smíðaður er þröngur rammi og látið eins og hann sé einhvers konar náttúrunnar verk. Ekki er tekið tillit til samfélagsins, eins og sumir hafa sagt hér, en það er samfélagið sem liggur undir. Að sjálfsögðu. Ekki er heldur tekið tillit til þeirra vandamála sem að samfélaginu steðja.

Ekki er ljóst hvernig hægt er að laga heilbrigðiskerfið, sem er forgangsverkefni flestra landsmanna, innan þess ramma. Það er heldur ekki ljóst hvernig ríkisstjórnin hefur hugsað sér að bæta kjör þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu eða bæta menntun. Ekkert af þessu er mögulegt innan þessarar fjármálastefnu. Við vitum að það er mikil þörf á innviðauppbyggingu sem búin er að hlaðast upp undanfarin ár. Það stendur mjög skýrt að eingöngu eigi að nota einskiptispeninga í uppbyggingu á innviðum, en á sama tíma segir að allar einskiptistekjur eigi að fara beint í niðurgreiðslu skulda. Þetta tvennt getur ekki átt sér stað samtímis.

Við verðum líka að muna að á meðan fjármálastefnan setur okkur svo þröngan ramma er ekki hægt að útvíkka neitt nema verg landsframleiðsla aukist einnig, sem hefur reyndar verið raunin undanfarið. Mér þótti það áhugaverð fullyrðing á sínum tíma og mér finnst hún enn áhugaverð að gengið sé út frá því að aukning á vergri landsframleiðslu fari minnkandi í einni af þeim forsendum sem stefnan gefur sér. Hvað gerist þá? Það er nefnilega þannig að þetta bara gengur ekki upp.

Það er margt í þessu sem stenst ekki skoðun. Þess vegna vil ég nota tækifærið til þess að ræða pólitík. Ný lög um fjármál eru bara bláköld tilraun til þess að fjarlægja alla pólitík út úr stjórnmálunum, að gelda þingið með því að svipta það getu til þess að taka afstöðu, nema að vísu hérna í þessu tiltekna máli. Þegar fjármálastefna er sett markar hún pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar og um leið pólitíska fjötra allra þeirra sem koma að ríkisrekstri næstu fimm árin, ekki síst okkar sem eru hér á þinginu. Við sem erum í stjórnarandstöðu erum ekki bundin af þessu, en við munum ekki fá nein önnur svör en að þetta sé ekki hægt vegna þess að það gangi á móti stefnunni. Þess vegna get ég ekki unað við það að ríkisfjármálin séu sett í þvílíka tæknikreddu peningahyggjunnar að ekkert annað komist að. Við verðum að horfa fram á veginn og sjá hvað í þessari stefnu felst. Alþingi getur ekki ákveðið nákvæma fjármögnun tiltekinna verkefna. Alþingi getur ekki ákveðið að breyta forgangsröðun verkefna í reynd þar sem ráðherra virðist geta tekið sér það bessaleyfi að ýmist forgangsraða öðruvísi eða hætta við verkefni, samanber það sem hæstv. samgönguráðherra hefur verið að fást við. Alþingi hefur að auki misst töluvert stóran hluta þingræðisins frá sér í hendur ráðherra hvers málaflokks og raunar í reynd til ókjörinna embættismanna í praxís.

Stjórnarmeirihlutinn er líka upptekinn af því hvert hlutfall skatta af vergri landsframleiðslu skuli vera og hefur mikinn áhuga á því að lækka skatta. Á móti hafa Píratar viljað horfa á raunupphæð skuldanna annars vegar og svo vaxtabyrði ríkissjóðs hins vegar. Þótt hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu sé vissulega fín stærð og notuð mjög víða sem viðmið, enda er hún góð sem samanburðartala til að bera eitt land saman við annað, er hægt að breyta hlutfallinu bæði í teljara og nefnara. Nefnarinn er í raun utan þess sviðs sem ríkið hefur bein áhrif á vegna þess að gengisbreytingar, breytingar á heimsmarkaðsverði á vörum, eftirspurn eftir fiski og áli og upplifanir í náttúru Íslands, fjárfestingarstig og flest allt annað getur haft áhrif á það. Þó getur ekkert af þessu haft jafn mikil áhrif á verga landsframleiðslu og breytingar á peningamagni í umferð, vegna þess að þrátt fyrir að gengið sé út frá því að verg landsframleiðsla reyni að mæla stækkun hagkerfisins kemur í ljós að peningamagn í umferð er alstærsta skýribreyta vergrar landsframleiðslu. Það hefur verið rannsakað og ritrýnt. Það þýðir að lánastarfsemi og húsnæðismarkaðurinn er hugsanlega betri mælikvarði á framtíðargetu ríkissjóðs til þess að borga fyrir heilbrigðisþjónustu og allt það og hvort við erum með sterkt hagkerfi.

Gott og vel, herra forseti. Notum verga landsframleiðslu. Þá skulum við líka skilja að breyting nefnarans skýrir nær alla lækkun á hlutfalli skuldahlutfalls hins opinbera af vergri landsframleiðslu. Raunlækkun á skuldum sem er gert ráð fyrir er eingöngu áætluð um 4,35% í þessari stefnu yfir fimm ára tímabil þrátt fyrir að 2% af vergri landsframleiðslu væru dregin frá. Að vísu er gengið út frá 1% og að það fari svo upp í 1,6%. En ef við myndum taka 2% væru það um 60 milljarðar kr. í dag, sem er í rauninni minna en ríkissjóður borgar í vaxtakostnað á hverju ári. Þetta er náttúrlega svolítil steypa. Á meðan það er gott markmið í sjálfu sér að reyna að lækka ríkisskuldir þá er vaxtakostnaður mun mikilvægari þáttur. Ég hef rakið það í löngu máli m.a. í fyrri umræðu þessa máls.

Þegar búin er til stefna af þessu tagi er auðvitað lykilatriði að forsendurnar séu alveg skýrar. Ég hef nefnt það áður og legg áherslu á að ef forsendur eru rangar verður niðurstaðan líklega röng, það er að vísu mögulegt en mjög ólíklegt að fá rétta niðurstöðu með röngum forsendum. Til þess að hægt sé að gera góðar áætlanir þarf góðar spár. Ég held að stærðfræðileg líkanagerð sé svolítið áhugamál hæstv. fjármálaráðherra og ég held við séum fleiri í salnum sem deilum því áhugamáli með honum. Þetta er svolítið í nördalegri kantinum, en ókei, við þurfum samt ekki að ganga svo langt að fara út í einhverja líkanagerð. Það væri nóg að setja upp nokkrar sviðsmyndir sem ganga út frá því að lýsa stöðunni og markmiðinu og sýna á hvaða hátt við getum komist á milli staða og hvernig við getum villst af leið. En sviðsmyndirnar eru engar. Þær vantar alveg í þetta.

Hæstv. ráðherra sagði í gærkvöldi að það vantaði betra þjóðhagslíkan. Ég tek heils hugar undir það. Ég skil líka þá vandræðastöðu sem ríkisstjórnin var í strax og hún tók við stjórnartaumunum að fara allt í einu í gallaða áætlanagerð í glænýju formi án þess að hafa neitt fyrir sér annað en þjóðhagsspá, sem er að miklu leyti bara plat, og að þurfa að gera það á mjög stuttum tíma. Það er ekki öfundsverð staða.

Við verðum samt að átta okkur á að þessi stefna uppfyllir ekki ákvæði laga. Þessi stefna segir okkur ekki hvernig framtíðin gæti litið út. Þessi stefna fullyrðir eiginlega út í bláinn án þess að góð rök séu fyrir málinu. Það hefði kannski átt að taka lengri tíma í vinnuna, vinna málið faglega, jafnvel slá á einhverja af þeim hugmyndafræðilegu kennisetningum sem virðast vera innbakaðar í tillögunni, og vinna þetta vel. Það er ekki stór bón.

Í raun er niðurstaðan þessi: Umræða fjármálastefnu sem uppfyllir ekki ákvæði laga er efnisrýr. Hún byggir á vafasömum forsendum, hún grundvallast á því að hagkerfið haldi áfram að vera jafn sterkt og undanfarin ár þrátt fyrir að forsendur stefnunnar sjálfrar gangi út frá því að svo verði ekki. Það er svolítið eins og að spá roki og rigningu og fara svo í stuttbuxur. Ég skil ekki þessi vinnubrögð.

Maður hefði haldið að við værum einmitt með sameiginlega löngun til að breyta, sem ég held að flestir nýir þingmenn deili, og jafnvel þeir sem eldri eru og reyndari, að breyta vinnulaginu, gera hlutina betur, skila af okkur betri vinnu. Það er náttúrlega búið að tala dálítið mikið um það í umræðum um málið að það er ekkert til að tala um hérna vegna þess að þetta hefur ekki verið unnið nægilega vel. Við getum talað um þetta út frá pólitískri hugmyndafræði, við getum talað um þetta út frá hagfræði og við getum líka talað um þetta út frá hreinu vinnulagi og verkferlum. Það er það sem ég hef lagt áherslu á að gera hér. Þegar upp er staðið er vandinn sá að við erum að tala um galla skýrslunnar í staðinn fyrir að tala um kosti hennar vegna þess að það eru engir kostir, það er ekki neitt. Þá erum við í þeirri stöðu, að hluta til vegna þess að þetta er nýtt fyrirkomulag, að nú bíðum við eftir því að sjá hvernig fyrsta fjármálaáætlunin sem gerð er eftir þessu formi lítur út. Þetta er nýtt form og við vitum það öll. Við vitum í rauninni afskaplega lítið um hvernig ferlið mun vera í framhaldinu vegna þess að þarna eru ótroðnar slóðir. Allt í lagi.

Nú er verið að ræða fjármálastefnuna á þessu stigi málsins, sem bindur okkur til fimm ára, eða bindur alla vega ríkisstjórnina til fimm ára og svo er spurning hvernig stjórnarandstaðan bregst við því. Svo kemur einhver fjármálaáætlun og hún er væntanlega íburðarmeiri vegna þess að það er ekkert hér. Þegar hún kemur getum við farið að sjá heildarmyndina, þá sjáum við vonandi hvert ríkisstjórnin hyggst stefna í heilbrigðismálum, í menntamálum, í uppbyggingu á innviðum, gatnakerfinu o.s.frv. Þá getum við farið að átta okkur á því hvernig samfélagið mun hugsanlega líta út á næsta ári og eftir tvö, þrjú, fjögur ár og kannski fimm. Þá erum við í stöðu þar sem við getum í rauninni farið að ræða um þetta út frá kostum, kannski, ekki svo að skilja að kostirnir séu allt í einu komnir inn í málið, en þá höfum við alla vega einhvers konar mótvægi. En þangað til erum við í einhverju tómarúmi. Við erum í tómarúmi þar sem verið er að þröngva okkur til þess að klára umræður um þetta mál og jafnvel samþykkja það án þess að hafa séð hvernig ferlið lítur út. Mér finnast svoleiðis vinnubrögð ekki nógu góð.

Mér finnst við ekki standa okkur vel sem þing ef við samþykkjum að taka þetta mál út og jafnvel greiða atkvæði um það áður en við sjáum fjármálastefnuna eða fjármálaáætlunina — jafnvel heitin eru ruglingsleg. Við verðum að gera betur. Við erum komin hérna saman til þess að gera vel í rekstri þessa lands bæði á lagasetningargrundvelli og öðrum grundvelli hjá hæstv. ríkisstjórn, en við getum það ekki ef við erum alltaf í einhverjum vitleysisgangi þar sem við fáum ekki almennileg, skýr módel eða sviðsmyndir eða a.m.k. tillögur sem eru í samræmi við lögin sem sett voru.