146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur verð ég að ítreka það að þessi atriði sem hv. þingmaður nefnir koma fram í fjármálaáætluninni. Þar eru málefnasviðin sundurliðuð á sama grunni og er talað um í stefnunni, þ.e. til fimm ára. Fjármálastefnan er kannski svona hið hagfræðilega eða efnahagslega plagg, hinn efnahagslegi hluti, þótt auðvitað sé þetta sería má segja af plöggum sem menn setja fram. Ég held að það sé ágætlega góð hugsun í þessu og ég á engan heiður af þeirri hugsun. Þetta var byrjað eins og hefur komið fram áður í tíð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur sem fjármálaráðherra. Síðan var þessu haldið áfram. Það hefur verið ópólitískt ferli að setja þennan ramma. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli að við eigum málefnalega umræðu um þennan ramma eins og hann er, en ekki um aðra þætti, útfærslu fjárlaga eða fjármálaáætlunina.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að þeir þættir munu koma fram þar. Þar mun hann sjá að við förum yfir einstök málefnasvið, sem eiga einmitt að vera á því stigi. En þarna erum við að segja hver afgangurinn eigi að vera af rekstri hins opinbera. Hann er núna meiri en í fyrri fjármálaáætlun vegna þess að spennan er meiri. Við sjáum að hér var meiri hagvöxtur en búist var við. Það er talað um hvernig eigi að borga niður skuldir. Það erum við að gera til þess að fá lægri vaxtabyrði í framtíðinni sem allir þegnar munu njóta góðs af.