146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:48]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er búið að vera rosalega áhugavert að fylgjast með þessari umræðu. Ég hef lært mjög margt á henni. Samt hefur mér fundist eins og við værum of mikið að festa okkur í tækniatriðum því að við erum að tala um stefnu. Stefna á að vera einhvers konar hugmyndafræðilegt plagg að mínu mati. Ég get alveg fallist á það að í fjárlögum eigi að vera töluvert mikið af tölum og stærðum og tæknilegum útfærsluatriðum, sömuleiðis mætti fjármálaáætlunin vera þannig. En stefnan á að vera svolítið meira en það. Stefna er einhvers konar átt, einhvers konar markmið, hugmynd um eitthvað betra. Það hefur ekki komist til skila í þessu. Stefna er nefnilega ekki tafla með tölum og upptalningu á reglum og grautur af orðabókarskilgreiningum eins og þessi svokallaða fjármálastefna er.

Ég er búinn að tala oft um að það vanti einhvers konar framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn. Það sem ég meina með því er að það sé hægt að segja á þeim tímapunkti 2022 þegar þessi stefna á að vera orðin fullnuma þá sé eitthvað í henni, eitthvað í þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin leggur fram sem hefur á einhvern hátt gert samfélagið betra. Ég meina ekki betra í skilningi þess að það séu minni ríkisskuldir eða aðeins lægri vextir af ríkisskuldum, að verg landsframleiðsla sé aðeins hærri, heldur hreinlega að fólki líði betur, að samfélaginu hafi orðið eitthvað ágengt. Þegar ég horfi á þessa fjármálastefnu þá gengur hún einhvern veginn út frá því að samfélagið muni una sér best með því að það sé bara gert minna af öllu, að það sé minna af uppbyggingu, minna af því að borga fyrir kerfin sem tryggja okkur líf.

Mér varð hugsað til orða Daniels Burnhams sem mér finnast nokkuð áhugaverð þó svo að maðurinn sjálfur hafi kannski ekki verið í miklu uppáhaldi hjá mér, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Gerið engar litlar áætlanir. Þær skortir galdramátt til að hræra í blóði manna og munu líkast til ekki ná fram að ganga. Gerið stórar áætlanir. Miðið hátt í von og vinnu og munið að heiðvirð og rökrétt mynd sem skráð hefur verið mun aldrei deyja heldur lifa lengi eftir að við erum farin og gera vart við með sívaxandi þrásækni.“

Mér finnst þetta flott. Þetta er að vísu mín þýðing á þessum orðum, þannig að ef eitthvað var asnalegt í þessu þá er það upp á mig að herma. En vandinn er að við erum ekki að tala um stórar áætlanir hérna. Við erum að tala um litla áætlun, svo litla áætlun að hún rúmast á örfáum blaðsíðum. Það er náttúrlega ekki bara það, heldur eins og ég hef sagt í fyrri ræðum að þessi svokallaða stefna, sem lýsir engri stefnu, lýsir engri átt eða engu markmiði öðru en því að minnka aðeins ríkisskuldir og ná einhverjum afkomureglum, uppfyllir ekki einu sinni ákvæði laga um opinber fjármál sem hún gengur út á að uppfylla. Raunar standast lög um opinber fjármál ekki einu sinni stjórnarskrá að því er virðist þar sem þau hirða af Alþingi rétt sinn til sjálfsákvörðunar.

Þetta atriði, að þessi útfærsla á stefnu sé í andstöðu við lögin eða uppfylli alla vega ekki ákvæði laga, væri eitt og sér næg ástæða til þess að hafna þessari stefnu. Það þarf ekkert aðrar ástæður þó svo að þær hafi verið taldar upp í þessari umræðu í þingsal ekki bara í tugatali heldur í hundraðatali held ég. Á þessu augnabliki eru komnar svo margar ástæður fyrir því að hafna þessu að þetta er eiginlega orðið vandræðalegt. Það þarf ekki nema eina og hún er sú að þetta uppfyllir ekki lögin. En sú ástæða sem ég held að valdi því að ég mun segja nei við þessari stefnu er ekki það tæknilega atriði að hún uppfyllir ekki ákvæði laga heldur að þetta er ekki stefna, það vantar hugmyndafræðina. Það vantar eitthvað í þetta sem fær blóð manna til þess að hrærast og hugmyndir til þess að vakna og að einhver jákvæðni sé á dagskrá næstu fimm árin.

Þetta sést svolítið á því að þegar við erum að tala um þessa stefnu er ekki einu sinni hægt að hræra í blóði hv. þingmanna alla vega í stjórnarmeirihlutanum sem láta varla sjá sig í þingsal. Þeir hafa gert það að verkum með sínu þátttökuleysi að þetta hefur verið einhliða og eiginlega bara frekar leiðinleg umræða hjá okkur í stjórnarandstöðunni. Margt mjög áhugavert hefur komið fram, gríðarlega áhugavert, en nokkrar ræður hafa líka verið frekar þunnar, við verðum að viðurkenna það. Svona einhliða samtal mun alltaf verða þannig. Það verða ekki þau skoðanaskipti sem við þurfum til þess að útkoman verði einhvers konar framtíðarsýn.

Það eru fáir þingmenn í húsi. Það eru engir ráðherrar. Það er ekki hægt að eiga samtalið um hvernig við ætlum að haga heilbrigðismálum, samgöngumálum, félagsmálum og velferðarmálum. Við getum ekki einu sinni átt samtal við ráðherra, t.d. hæstv. iðnaðarráðherra um það hvernig nýsköpun muni verða. Við fáum ekki einhvers konar framtíðarsýn í rekstri hagkerfisins sjálfs vegna þess að hæstv. forsætisráðherra mætir ekki og ekki heldur hæstv. fjármálaráðherra þótt hann hafi reyndar gert það fyrstu dagana. En fyrir vikið hefur ekki verið neitt samtal. Við þurfum þetta samtal og við þurfum að fá stefnu sem vekur okkur til umhugsunar um þá framtíð sem við horfum fram á.

Í samtali mínu við hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson áðan fórum við aðeins inn á nokkur atriði sem skipta gríðarlegu máli fyrir framtíðina. Hvernig við ætlum að huga að umhverfinu, hvernig við munum bregðast við aukinni sjálfvirknivæðingu vegna bættrar tækni, gervigreind, sjálfkeyrandi bílum og einu áhugamáli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, kjötrækt, sem gæti mögulega breytt algerlega forsendum hagkerfis okkar. En auðvitað getum við ekki spáð fyrir um nákvæmlega hvaða tæknibreytingar og framfarir muni verða. Það er einmitt þess vegna sem við höfum stefnu.

Þegar maður skoðar hugmyndina á bak við svona stefnu, þá meina ég ekki þessa stefnu heldur hugmyndina á bak við stefnumótun í fjármálum ríkisins almennt, þá er viðkvæðið að það skuli vera einhvers konar grind, einhvers konar umgjörð um það hvernig við munum bregðast við í ríkisrekstrinum þegar hagkerfið breytist, þegar samfélagið breytist. Samfélagið mun breytast á næstu fimm árum, við vitum það. Við vitum ekki hvernig. Við getum gert okkur það í hugarlund. Við getum búið til sviðsmyndir, við höfum nú kallað frekar mikið eftir þeim. Við getum búið til einhvers konar hugmyndir um það hvað gerist ef gýs eða ef ferðamannastraumurinn eykst eða hann minnkar. Hvað gerist ef tækniframfarir verða töluvert meiri en við áttum von á eða jafnvel töluvert minni? Við getum búið til þessar sviðsmyndir. Við getum spilað þessa leiki, farið í þessa, með leyfi forseta, „war games“, stríðsleiki, með hagstærðirnar sem við sjáum fram á. Með því getum við farið að búa til framtíðarsýn sem okkur langar raunverulega til þess að takast á við. Þá fer kannski að hrærast í blóði hv. þingmanna. Þá fara þeir kannski að mæta í þingsal. Þá getum kannski farið að eiga samtal um framtíð þjóðarinnar, vegna þess að þessi stefna, ef stefnu skyldi kalla og ég er ekki til í að kalla hana það, mun ekki gera það að verkum að við sjáum neina framtíð, alla vega ekki neina góða.