146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

ráðstafanir gegn verðhækkun íbúðarhúsnæðis.

334. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vilja eiga þetta samtal hér við mig. Það er tímabært að við ræðum húsnæðismál enn og aftur því að eins og við vitum er það ekki bara á Íslandi sem fasteignaverð hækkar ótæpilega á allt of skömmum tíma. Í fyrra var líka ein mesta árshækkun fasteignaverðs sem mælst hefur í Noregi sem varð til þess að Norðmenn samþykktu tímabundnar breytingar í eitt og hálft ár á reglugerð um fasteignalán til að sporna við einkennum fasteignabólu og þá sérstaklega í kringum Ósló og nágrenni. Meðaltalshækkunin í Noregi var um 10% en tæp 22% í Ósló og nágrenni. Á Íslandi var hækkunin hins vegar í kringum 15% og áfram heldur hækkunin samkvæmt nýjustu verðmælingum síðustu 12 mánaða, þ.e. í kringum 19% á höfuðborgarsvæðinu.

Skuldastaða norskra heimila hefur farið hækkandi og hefur aukið áhyggjur af neikvæðum langtímaáhrifum fyrir hagkerfið í heild. Við vitum á Íslandi af erfiðri reynslu að fasteignabóla sem er drifin áfram af óhólflegri skuldsetningu heimilanna er ekki vænleg til árangurs. Dönsk heimili voru og eru mun skuldugri en íslensk heimili og það sama á við um hollensk heimili. Eftir aðgerðir síðustu ríkisstjórna lækkaði Ísland niður fyrir bæði norsk og sænsk heimili á síðustu árum og voru það einungis finnsk heimili sem skulduðu minna en þau íslensku í lok árs 2015 og byrjun árs 2016.

Þróunin sýnir að árið 2016 snerist þetta við á Íslandi og við heyrum því miður af ungu íslensku fólki sem er í miklum kröggum, hvort heldur þegar kemur að því að kaupa sér húsnæði eða því sem fast er í neysluskuldum og leitar til umboðsmanns skuldara.

Norðmenn ákváðu sem sagt, eftir tilmæli norska fjármálaeftirlitsins, að ef viðkomandi keypti sér íbúð númer tvö yrði lágmarkshlutfall eigin fjár hækkað í 40% og líka hámarkslánstími og það átti að draga úr eftirspurnarþrýstingi á þeim svæðum þar sem mest hefur borið á framboðsskorti.

Með slíkum aðgerðum telja Norðmenn að bæði sé hægt að minnka þennan eftirspurnarþrýsting og um leið skapa aukið rými fyrir fyrstu kaupendur til að komast inn á markaðinn þar sem fjársterkir aðilar sem þegar eiga fasteign ættu erfiðara með að eignast fleiri. Þetta sama hefur átt við hér á landi þar sem fasteignaverð hefur markast af framboðsskorti sem á sér ýmsar skýringar, eins og við þekkjum. En ég verð að taka undir með Íbúðalánasjóði sem segir, með leyfi forseta:

„Fram að þeim tíma sem framboðið fer að skila sér í auknum mæli inn á markaðinn er full ástæða til að draga úr stöðutökum fjárfesta á fasteignamarkaðnum.“

Því langar mig að beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Telur ráðherra koma til álita að grípa til ráðstafana áþekkra þeim sem nú er beitt í Noregi til að hamla gegn miklum verðhækkunum á íbúðarhúsnæði á Óslóarsvæðinu eða annarra ráðstafana sem þjónuðu sama tilgangi, og þá hvaða?

2. Telur ráðherra að þær miklu verðhækkanir á húsnæði sem orðið hafa undanfarið á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) séu til marks um fasteignabólu sem kallar á óhóflega skuldsetningu íbúðarkaupenda? Ef svo er, hvernig telur ráðherra að bregðast skuli við af hálfu hins opinbera?