146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar löngu umræðu þakka fyrir margar málefnalegar ræður. Það er áhugavert að fylgjast með því þegar menn eru í fyrsta sinn að fara yfir fjármálastefnu sem er nýjung, þó svo það hafi verið gert í mýflugumynd síðastliðið sumar. Nú var aðdragandinn miklu lengri. Við höfðum tímann allt frá fyrsta degi þingsins og þangað til núna til að fara yfir stefnuna. Þingmenn gátu kynnt sér hana. Það er áhugavert, eins og ég heyri að margir hv. þingmenn hafa sett fram, að hugsa um hvaða vinnubrögð eru best við framsetningu fjármálastefnunnar og við umræður um hana. Ég held að það skipti mjög miklu máli í framtíðinni þegar við erum að skipuleggja stefnuna — sem reyndar verður nú ekki fyrr en eftir fjögur ár, en fjármálaáætlunin helst í hendur við þessa stefnu — að hafa í huga að þetta er ferli sem á að varpa betra ljósi á það hvernig við hyggjumst ramma inn fjármál íslenska ríkisins næstu fjögur til fimm árin. Jafnvel þótt lögð sé fram bæði ný stefna og ný áætlun er hugsunin í þessum lögum sú að það sé alltaf ákveðin samfella, alltaf þannig að menn líti til þess hvað gert var árið áður, þó svo að þetta bindi menn ekki svo mikið í báða skó að engu sé hægt að breyta.

Ég held að umræðurnar sýni að hv. þingmenn hafa tekið þetta vinnulag alvarlega. Það er svo sannarlega hægt að bera því vitni að Stjórnarráðið hefur tekið þetta vinnulag alvarlega. Þá komu fram margar ágætar ábendingar um hvernig væri hægt að haga þessu öðruvísi. Til dæmis setti fjármálaráð fram ábendingar í skýrslu eða áliti sem það lagði fram. Ráðið lagði fram álitið eftir að fjármálastefnan var sett fram og því var auðvitað ekki hægt að taka tillit til þeirra ábendinga við framlagningu þessarar stefnu. En þetta geta menn gert í framtíðinni. Og þetta er reyndar líka, rétt að vekja athygli á því, í fyrsta sinn sem fjármálaráð setur fram sitt álit eins og það á að gera lögum samkvæmt.

Það er mjög áhugavert og mikilvægt fyrir okkur öll að hugsa um það hvað sé eðlilegt aðhald í ríkisrekstrinum. Og þegar þarf að vera hallarekstur hvað sé eðlilegt að hann sé mikill. Hvernig eigum við að haga ríkisfjármálunum? Hvað eigum við að setja mikið í rekstur einstakra stofnana? Hvað eigum við að setja mikið í innviði? Hvað eigum við að setja í venjulegan rekstur? Hvað eigum við að setja til að byggja eitthvað upp, hvort sem við erum að tala um nýjan Landspítala, nýtt Hús íslenskunnar eða hreinlega vegi eða göng sem þarf auðvitað að gera víða um landið? Allt þetta verðum við að hugsa og læra síðan af niðurstöðunni.

Nú förum við af stað með þessa niðurstöðu í næstu umræðu um fjármálaáætlunina. Það er ekkert einkennilegt að margir hafi ruglað þessum tveimur hugtökum saman. Ég hef sjálfur gerst sekur um það. Það er eðlilegt að meðan hugtökin eru að slíta barnsskónum og við öll hér að læra á þau að við áttum okkur ekki alveg á hvað er hvað.

Ég held þó að við getum séð eftir umræðuna hvað það er sem helst var gagnrýnt. Ef ég horfi á þær athugasemdir sem settar voru fram voru þær kannski helst á þær leið að aðhald hefði mátt vera meira. Sumir hafa jafnvel sett fram að það hefði verið hægt að vera með meira aðhald en bæði afla meiri tekna og vera með meiri útgjöld. Allt eru þetta atriði sem eru til umhugsunar þeim sem fást við ríkisfjármálin.

Það er örugglega auðveldara að setja fram fjármálastefnu og fjármálaáætlun þegar vel árar í ríkisrekstrinum en í kreppum. En eitt af því sem við þurfum samt að hugsa um er hvaða áhrif þættir hafa sem eru ekki beinlínis í fjármálastefnunni og síðan í fjármálaáætluninni, t.d. rekstur fyrirtækja ríkisins sem við vitum að eru mörg í miklum framkvæmdum og reyndar fyrirtæki sveitarfélaga eins og Orkuveitan. Það er samspil sem við þurfum að læra betur á.

Ég hef sagt það hér að það hefði verið mjög gagnlegt við undirbúning þessa starfs í fyrsta lagi að hafa meiri tíma, í öðru lagi að hafa meiri reynslu og í þriðja lagi að hafa betri tæki. Allt þetta hefði hjálpað okkur öllum, hvaða skoðun sem við höfum síðan á niðurstöðunni sem komin er. Ég er sammála þeim hv. þingmönnum sem hafa lýst þeirri skoðun að Alþingi þurfi að hafa góðan aðgang að sérfræðingum ekkert síður en framkvæmdarvaldið. Ég held að það sé líka mikilvægt að við séum með þjóðhagsleg líkön sem margir hafa aðgang að. Það er eðli hagfræðilíkana að þau sýna kannski sjaldnast rétta niðurstöðu en eftir því sem við lærum meira getum við kannski komist nær sanninum.

Ég held að ef einhvern einn lærdóm megi draga af hruninu árið 2008 og aðdraganda þess sé hann sá að við eigum að sýna varfærni á öllum sviðum, hugsa fram í tímann. Jafnvel þótt við munum ekki vita hvað gerist, eðli málsins samkvæmt, erum við þó búin að hugsa á þeim nótum hvað við gerum ef þetta kemur fyrir. Margir hv. þingmenn hafa bent á að það hefði verið fróðlegt að setja upp mismunandi sviðsmyndir. Ég get tekið undir það. Það hefði vissulega verið fróðlegt. Það væri gaman að gera það í framtíðinni, að segja: Ef tekjurnar verða þessar, hagvöxturinn þessi, þá er líklegt að niðurstaðan verði með þessu móti. Við höfðum ekki þau tæki núna en við höfum lært af þessu ferli.

Þess vegna vil ég ítreka þakkir mínar til þingmanna sem hafa lagt fram málefnalegar athugasemdir. Nú má alveg hugsa það að kannski hefðu menn átt að leggja fram fleiri beinar tillögur, setja fram t.d. tillögu um að aðhaldið ætti ekki að vera 1,5% heldur 2% eða 1,5—2,5%, að það væri á ákveðnu bili. Það var ein af athugasemdum fjármálaráðs. Það má svo sem líka velta því fyrir sér ef það væri ákveðið bil hvort hv. þingmenn myndu ekki alltaf freistast til að vera í neðri hluta bilsins. Það er hugsanlegt. Ég lít svo á að þegar við setjum fram 1,5% séum við í rauninni, miðað við þá óvissu sem eðli málsins hlýtur að vera, að tala um kannski plús/mínus 0,2–0,3 prósentustig Vonandi tekst okkur, ef ekki koma stór áföll upp, að vera svo nærri því.

Ég held að það sé mikilvægt þegar umræða af þessu tagi, sem ég lít á sem grundvallarumræðu í þingstörfunum, að við reynum öll að vera sem markvissust í okkar málflutningi, koma með beinar athugasemdir og hugleiðingar um þetta ferli, þannig að sem mest gagn verði að umræðunum fyrir ferlið í framtíðinni því þetta er alveg örugglega ekki í síðasta sinn sem menn gera slíkt. Ég man eftir því þegar fyrst voru settar fram hugmyndir um að setja fram fimm ára fjárlög fannst mér þær byltingarkenndar en afar jákvæðar. Mér finnst þess vegna mjög gaman að fá núna tækifæri til að koma að þessu á frumstigi, þegar þessu er hrint af stað í raun, en vek þó athygli á að hugmyndirnar ná nokkuð langt aftur. Meðal annars var unnið að þessu í tíð ekki bara síðustu ríkisstjórnar heldur ríkisstjórnarinnar þar á undan að undirbúa verklag af þessu tagi. Þeir sem þar lögðu hönd á plóg eiga hrós skilið.