146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[19:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pawel Bartozsek tók að mínu áliti á áhugaverðum málum sem við ræðum lítið en hefur samt komið upp í lagafrumvörpum. Ég man það til dæmis í lögum um Landmælingar. Þá voru menn að stíga skref sem mér fannst skynsamleg og hv. þingmaður vísaði einmitt til fordæma frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Ég þekki það ekki í Bretlandi en það virðist vera almenn stefnumörkun sem fylgt er eftir í Bandaríkjunum þegar kemur að upplýsingum. Í því tilfelli var verið að ræða um það sem snýr að kortagrunnum og slíku sem Landmælingar eiga, ef þannig má að orði komast. Þá er það spurningin hvaða aðgang fólk gæti haft að því án endurgjalds. Auðvitað kostar þetta allt saman. Einhver borgar fyrir það. Í þessu tilfelli eru það skattgreiðendur, en í því tilfelli var nálgunin sú, ef ég man rétt, það má vel vera að ég geri það ekki, að það væri réttmætt og eðlilegt að flestar þær upplýsingar sem þar voru yrðu aðgengilegar fyrir almenning. Síðan geta menn nýtt úr því og meðal annars skapað sér verðmæti úr því eins og í kortunum. Hv. þingmaður þekkir þau mál sem hann var að vísa til miklu betur þegar kemur að því að vinna úr upplýsingum.

Hér erum við bara, ef fer sem horfir, að samþykkja stjórnskipulegan fyrirvara. Þetta fer inn í EES-samninginn, svo kemur þetta hér inn, þá þurfum við að setja það inn í okkar lagaumhverfi. Þá væri ekki úr vegi að skoða þetta út frá þeim forsendum sem hv. þingmaður var að vísa til. Ég held að það væri gott að það væri almenn regla að almenningur hefði aðgang að og gæti nýtt sér upplýsingar sem hið opinbera fer með eignarrétt eða ákvörðunarvald yfir. Ég held að allt mæli með því og er sammála hv. þingmanni í því sem hann fór yfir hér áðan.