146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get í flestu tekið undir með hv. þingmanni um það sem hefur verið sagt um mikilvægi rannsóknarstarfsins og þekkingarinnar til að viðhalda einfaldlega þeim frábæru lífsgæðum sem Íslendingar hafa náð á síðustu áratugum. Forsendan fyrir því að við höfum haldið stöðu okkar meðal þjóða er sú að skólakerfið okkar hefur virkað, atvinnulífið hefur tekið breytingum. Þetta er allt þekkingu að þakka. Í grunninn byggjum við á þessu þegar við ræðum þau lífskjör sem við búum við og viljum búa við um ótakmarkaða framtíð.

Það liggur engin heildstæð áætlun fyrir um það hvernig við ætlum að bregðast við áhyggjum rektoranna. Ég segi að þeir bera sömuleiðis ábyrgð á því hvernig við tökum á þeim verkefnum sem við blasa. Þeirra skoðanir í þeim efnum geta verið misjafnar og eru það örugglega og nálgunin misjöfn. Við erum með mismunandi rekstrarform á háskólastiginu. Möguleikar háskólanna til að bregðast við eru misjafnir, eins og við þekkjum.

Ég þekki ekki ástæðurnar fyrir því hvers vegna þessum 50 námskeiðum var hætt. Það kann að vera að fyrir einhverjum þeirra sé einfaldlega ekki áhugi, ekki sé þörf á sumum. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að þetta sé allt vegna hreins fjárskorts. Það kann hins vegar vel að vera. En meginatriðið er að háskólinn hefur fullt sjálfdæmi um það með hvaða hætti hann nýtir þær fjárheimildir sem honum eru veittar af þinginu hverju sinni. Það er stóra málið. Hlutverk okkar í ráðuneytinu er að fylgja eftir þeim áherslum sem þar hafa verið settar, (Forseti hringir.) hvort tveggja í lögum og reglugerðum.