146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:28]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég mun reyna að svara eftir bestu getu.

Varðandi þyrlurnar er það þannig að hagkvæmara er að kaupa þessar þyrlur en leigja þær, þannig að það er svo sem hægt að færa rök fyrir því að það væri alltaf rétt að gera þrátt fyrir að það mögulega vantaði síðan frekari fjármuni til rekstrarins, sem er auðvitað ekki gott að vanti, en þetta er svona viðskiptalegs eðlis líka að ákveðið er að fjárfesta í þessum þyrlum.

Varðandi löggæsluna og lögregluna er verið að bæta við 400 milljónum nú og festa þær í rammann sem komu inn í fyrra og ráðherra dómsmála hefur sagt að sérstaklega sé lögð áhersla á t.d. ofbeldisbrot líkt og hv. þingmaður kom inn á.

Síðastliðin ár hafa verulega aukin fjárframlög skilað sér til löggæslunnar, sem vissulega var gífurleg þörf á og að öllum líkindum hægt að tala fyrir því að það vanti áfram. En það er þó þannig að frá árinu 2014 komu fyrst inn 500 milljónir sem fóru sérstaklega í að efla embættin úti á landi, það var fest í ramma, svo komu inn 400 milljónir, þar var farið í greiningu á því hvar þörfin var mest. Niðurstaðan á því var landamæraeftirlit og þeir staðir þar sem fjölgun ferðamanna hefur verið mest. Nú er búið að festa það inni þannig að samanlagt eru þetta töluvert auknir fjármunir sem munu nýtast vel og m.a. í þau verkefni sem hv. þingmaður kom inn á líkt og hann nefndi varðandi ofbeldisbrotin.