146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:13]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Sem formaður velferðarnefndar vil ég einbeita mér að þeim málefnum sem tilheyra ábyrgð sem mér er falin sérstaklega. Í því tilefni hef ég ákveðið að eiga samtal við hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra þrátt fyrir ákall um að ég taki þátt í öllum umræðum. Það er alltaf gott að vita að menn hafi áhuga á að heyra það sem ég hef að segja um málefni sem hér eru rædd.

Ég hef eins og allir verið að lesa fjármálaáætlun með stækkunargleri, sérstaklega málaflokka 22–34 sem eru málefni sem við eigum að mínu mati að vinna saman að í góðri sátt þar sem um er að ræða málefni sem snýst um fólk sem þarf mest á aðstoð okkar að halda.

Ég viðurkenni að við höfum mikið verk að vinna og hæstv. ráðherra hefur sett mörg markmið sem ég bind miklar væntingar við. Hér í fyrri umræðu vil ég ræða málefni tengd fötluðu fólki og örorkulífeyri. Eins og við vitum er hópur í samfélaginu sem þarf á tækifæri til reisnar að halda og á skilið að upplifa virðingu innan þeirra kerfa sem hann er háður.

Í áætluninni er mikið rætt um starfsgetumat og sjálfstæði. En til þess að framkvæma starfsgetumat og efla sjálfstæði er að mínu mati nauðsynlegt að endurskoða örorkulífeyriskerfið eða almannatryggingar. Í fjármálaáætlun er rætt um einföldun á kerfinu, aðgerð sem er mjög metnaðarfull að mínu mati. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fjalli aðeins um hvernig hann sér fyrir sér að slík vinna muni fara fram og hvernig samráði og samvinnu við t.d. sveitarfélög, ýmis samtök og velferðarnefnd verður háttað. Við vitum t.d. að meiri hluti af þjónustu sem tengist örorkulífeyri er veittur á sveitarfélagsstigi með sérstöku tilliti til félagsaðstoðar. Á sömu nótum óska ég eftir að heyra aðeins um lögfestingu NPA og einnig hvernig samstarfi við sveitarfélögin verður háttað svo að við náum að sinna lögfestingu betur en aðlöguninni sem hefur nú þegar farið fram. Allt of oft höfum við heyrt um bilið milli ríkis og sveitarfélaga sem hefur því miður hingað til skilið fólk eftir á milli kerfa eða á gráu svæði, sem á mannamáli er einfaldlega á mjög vondum stað.