146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Hér ræðir hv. þingmaður um forgangsröðun. Honum finnst hann ekki heyra það, þá væntanlega í þessum sal eða ég veit ekki hvar, að forgangsröðun sé í umhverfis- og loftslagsmálum þrátt fyrir að ég hafi reynt að lýsa því mjög skýrt hér rétt áðan og ekki bara áðan, örugglega í hvert einasta skipti sem ég kem upp í þennan stól, að loftslagsmál eru númer eitt í minni forgangsröðun. Þá er það alla vega skýrt núna.

Varðandi skuldirnar. Ég hef verið að heyra þetta dálítið frá Pírötum að ekki sé mikilvægt að borga niður svona mikið af skuldum. Þá vil ég segja að ég vona að okkur lánist að láta ekki börnin okkar bera okkar eigin skuldaklafa. Það er mikilvægt mál fyrir framtíðina og nútíðina líka, til að vera ekki að borga alla þessa vexti, að við borgum niður skuldir. Ég hélt reyndar að einhugur væri um það milli stjórnmálaflokka en þarna hef ég þó fundið einn sem leggur ekki áherslu á það.

Varðandi spurningarnar um hvernig bíl ráðuneyti mitt hefur ákveðið að kaupa sem ég keyri á, þá er það einhver svona hybrid, nei, hvað heitir þetta, rafmagnsbíll sem hefur líka — (Gripið fram í: Tvinnbíll.) tvinnbíll, já. Að sjálfsögðu eiga opinberir aðilar að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er verið að skoða það sérstaklega í fjármálaráðuneytinu hvernig við breytum eða getum lagað til, getum við sagt, þessa hvata sem eru ekki nógu vel úr garði gerðir núna. Það hefur reyndar staðið yfir heildarendurskoðun á þeim um nokkurn tíma, hvernig við hvetjum til grænna kaupa á ökutækjum frekar en hitt.