146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég get vel skilið að hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra umhverfismála vilji fá að vita betur og nákvæmar í hvaða stofnanir, á hvaða málefnasvið, krónurnar og aurarnir eiga að fara. En ég verð að biðja hann að doka við um stund. Hér erum við að ræða um rammann. Við erum ekki komin lengra en svo að við erum með hann. Nú er hafin vinna í ráðuneytinu við að skipta fé niður á verkefni og stofnanir. Ég skal glöð ræða það við hv. þingmann þegar það uppbrot er tilbúið. En það er það ekki núna.

Það liggur ljóst fyrir að hér hefur verið aukið í. Það liggur ljóst fyrir á hvað ég legg áherslu og við í mínu ráðuneyti. Það eru loftslagsmálin, innviðauppbyggingin. Með breytingu á Framkvæmdasjóði ferðamanna fer fjármagn vonandi beint til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í innviðauppbyggingu í þjóðgörðum sem Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með. Þetta mun ekki fara einhverjar skrýtnar leiðir á rétta staði. Við höfum nú þegar millifært á það svið eitt 400 milljónir. Það mun samt ekki nægja. Ég mun útdeila meiru þangað, svo að eitthvað sé nefnt.