146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:26]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þenslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikið af verkefnum að fara í útboð hjá Vegagerðinni á næstu dögum og vikum. Það var aukið verulega í viðhaldsþátt Vegagerðarinnar, úr 5,8 milljörðum í 8,1 milljarð. Þetta eru ýmis smærri verk sem eru boðin út víða um land. Það verður áhugavert að sjá þegar þetta kemur fram hvernig þróunin er þá annars staðar á landinu í samanburði við það hvernig hún er hér. Ég veit að hv. þingmaður sýndi mér í morgun tölur frá verkefni sem Kópavogsbær var að bjóða út og fór lægsta tilboðið allt að 50% yfir kostnaðaráætlun. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og þarf að skoðast sérstaklega. Krýsuvíkurgatnamótin voru kannski innan skekkjumarka, það var þó um 10% hærra en áætlað hafði verið. Það er alveg ljóst að verktakaiðnaðurinn, jarðvinnuverktakaiðnaðurinn varð fyrir miklu höggi við hrunið og hefur ekki náð vopnum sínum og það mun taka á að byggja upp öfluga starfsemi á þeim vettvangi aftur.

Borgarlínan var ekki tekin inn í þessar áætlanir eða markmið að því leyti, enda óljóst hjá okkur um hvað þetta fjallar þótt vissulega hafi verið ákveðið samstarf um almenningssamgöngur. Ég hef átt viðræður við borgarstjóra m.a. Við höfum lýst áhuga á því að koma að þessu verkefni með Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vitnaði til þess áðan að samningurinn 2012 hefði ekki gengið mjög vel. Það má vera að það sé ekki alveg rétt hjá mér, ég skal ekki fullyrða um það, en ég var þó með tölur frá árinu 2012–2015 sem sýndu ekki mikla aukningu, ef ég man rétt um 15% (Forseti hringir.) aukningu af samningi sem þá var kominn 1/3 (Forseti hringir.) af en stóð til að tvöfalda þetta á tíu árum með þessu framlagi. Ég held að við þurfum að (Forseti hringir.) endurskoða þetta samstarf á þeim grunni (Forseti hringir.) og nota þá þessa fjármuni inn (Forseti hringir.) í borgarlínuverkefnið líka.