146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Stutta svarið er að það er allt gott að frétta. Ég bíð eftir tilnefningu frá einum stjórnmálaflokki þannig að ég geti skipað nefnd sem hefur það hlutverk að skapa sátt um gjaldtöku og fyrirkomulag hennar um sjávarútveginn, grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að þetta þarf að gerast sem fyrst. Ég sé fyrir mér að nefndin verði skipuð fyrir páska, ef allt gengur upp, en að hún hafi síðan svigrúm út þetta ár til þess að skila. Ég hef undirstrikað það að vilja taka sjávarútveginn og landbúnaðinn út úr þeim skotgröfum eða skotgrafahernaði sem stjórnmálaflokkar af öllu litrófinu hafa farið í rétt fyrir kosningar. Ég vil að sú vinna verði unnin sem fyrst, á fyrri parti kjörtímabilsins, þannig að stjórnmálamenn geti af yfirvegun farið yfir þá þætti sem þeir telja að stuðli að frekari sátt um sjávarútveginn.

Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á er algjörlega stórkostlegt að hann skuli ekki vera niðurgreiddur af íslenska ríkinu. Það er ein af þeim spurningum sem við fáum iðulega í þeim hópum sem koma hingað til að kynna sér íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Þar verðum við að passa okkur og gæta okkar þótt þrýstingur sé mikill á að koma með beinum eða óbeinum hætti að því að niðurgreiða hugsanlega laun eða einhverja aðra þætti innan útgerðarinnar.

Ég tel stöðu okkar Íslendinga góða hvað varðar sjávarútveginn. Ég tel líka svigrúm núna og tækifæri til staðar eftir samtöl mín við fólk úr öllum flokkum, fólk vill ná sátt. Við viljum ljúka þessu þannig að við getum einfaldlega farið að taka utan um greinina svo að við ræðum um hana á jákvæðan og uppbyggilegan hátt í stað þess að vera alltaf að rífast um hvernig fyrirkomulagið eigi að vera sem slíkt. Við þurfum að halda áfram að byggja upp sjávarútveginn. Það gerum við stjórnmálamenn með því að (Forseti hringir.) axla ábyrgð og reyna að mynda sáttina og ná í sáttina sem tengist gjaldtöku í sjávarútvegi.