146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjármálaráð og fjármálaáætlun.

[15:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Andi laganna um opinber fjármál er að hið opinbera fari nýjar leiðir og gæti að hag almennings til lengri tíma með vandaðri stefnumótun og áætlanagerð og í kjölfar framlagningar fylgi almenn umræða um stefnumótunina og áhrif hennar, t.d. á rekstur skóla, heilbrigðisþjónustu, lífeyrisgreiðslur, atvinnuleysistryggingar, á húsnæðismál, stuðning við barnafjölskyldur og viðbrögð við öldrun þjóðarinnar, svo ég nefni nokkur stór mál sem fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára, sem nú er í vinnslu í öllum nefndum þingsins, fjallar um eða ætti að fjalla um.

Fjármálastefna og -áætlun hefur áhrif á líf okkar allra sem búum á Íslandi. Við höfum fundið illilega fyrir því í versnandi kjörum þegar stjórnvöld hafa stundað slæma hagstjórn og óvönduð vinnubrögð. Til að verja almenning fyrir slíku fúski var lögbundið að sérstakt fjármálaráð yrði starfrækt sem leggja á mat á fjármálastefnuna og áætlunargerðina. Fjármálaráð er fyrst og fremst faglegt ráð sem beitir þeirri aðferðafræði sem best er talin á sviði hagvísinda.

Nú hefur fjármálaráð gefið út ítarlegar og góðar umsagnir þar sem bæði fjármálastefnan og fjármálaáætlun stjórnvalda eru harðlega gagnrýndar. Þar er t.d. sagt berum orðum að ráðið telji að sá mælikvarði sem notaður er til að meta aðhaldsstig opinberra fjármála sé rangur og einnig að stóru málin, svo sem vöxtur ferðaþjónustu, gengisþróun, spenna á vinnumarkaði, verðhækkanir á húsnæðismarkaði og öldrun þjóðarinnar, kalli á frekari greiningar á sviðsmyndagerð og það sé ekki nóg að lýsa því bara að þarna sé vandi á ferð heldur þurfi að koma með lausnir. Það er margt fleira sem er gagnrýnt í umsögn ráðsins.

Ég spyr fjármála- og efnahagsráðherra: Hvers vegna hefur hann ákveðið að hunsa ábendingar fjármálaráðsins? Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að það að hunsa ráðið hafi einhverjar afleiðingar.