146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég vera að troðast inn í annarra manna partí þegar ég fylgi Smára McCarthy í pontu eftir að hann er búinn að vitna í ýmsa kosningakerfasérfræðinga, sérstaklega af því að mig langaði bara að spyrja ráðherrann út í praktísk atriði varðandi framkvæmd kosninga. Ráðherra nefndi tillögur sem liggja hjá forsætisnefnd sem snúa m.a. að rafrænni kjörskrá sem ég tel mjög mikilvægt að fara að koma á til að framkvæmd kosninga verði eins góð og hugsast getur. Og svo er það hugmynd sem hefur verið nefnd í því sambandi um hvernig við getum samræmt framkvæmd kosninga milli kjördæma. Landskjörstjórnir eru misvel í stakk búnar til að takast á við það verkefni að skipuleggja kosningar. Er einhver ástæða til að efla leiðbeiningar og aðstoðarhlutverk ráðuneytisins eða er það eitthvað sem ætti að vera samstarfsverkefni ráðuneytis og þings? Er eitthvað slíkt til skoðunar í ráðuneytinu?