146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka fyrir ágæta umræðu um svona grundvallarmál sem skipta okkur öll máli. Ég held ekki að þetta sé einfalt mál, að það sé hópur góðs fólks sem vilji eitt og að aðrir séu vondar manneskjur sem vilja eitthvað annað. Við höfum sýnt það að við höfum ekki verið á móti viðskiptaþvingunum af neinu tagi. Í það minnsta hefur Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú er í ríkisstjórn, staðið að viðskiptaþvingunum á Rússland og sýnt að frjáls viðskipti með engum hömlum er engin mantra hvað sem gerist. Aðrir flokkar sem verið hafa í ríkisstjórnum hafa staðið að ýmsum hlutum. Hér hefur verið farið ágætlega yfir það dæmi sem er nærtækt í umræðunni þegar kemur að viðskiptaþvingunum, því að við erum með dæmi, svart á hvítu, um að þær hafi virkað: Suður-Afríka. Það er bara ósköp einfalt, hvar sem okkur ber niður í heiminum, hvort sem er þar eða annars staðar, ef við lítum yfir farinn veg í alþjóðasamstarfinu kemur í ljós að þær aðgerðir virkuðu, það er bara þannig.

Við tölum hér um Filippseyjar. Það er ekki eins og við séum að tala um einhverja atburði úr fjarlægri fortíð. Við erum að tala um forseta sem kosinn var til valda í fyrra. Árið 2016. Það er ekki liðið eitt ár. Það var í júní, hygg ég, sem hann tók til starfa. Við erum að velta fyrir okkur hvort að innan við ári eftir að Duterte kemst til valda eigum við að verðlauna hans hegðun á valdastóli með því að fullgilda fríverslunarsamning við ríki hans. Mér finnst það mjög umhugsunarvert og held að það sé ekki eins og mér finnst sumir hv. þingmenn dálítið hafa skákað í skjóli af, að þetta sé bara svo einfalt, að frjáls viðskipti séu alltaf öllum til góðs. En það er ekki þannig. Annars beittum við ekki Rússa viðskiptaþvingunum, er það? Annars hefði hæstv. utanríkisráðherra væntanlega komið á framfæri mótmælum sínum þegar síðasta hv. ríkisstjórn setti viðskiptaþvinganir á Rússa, ef hann telur í hjarta sér að sem frjálsust viðskipti séu alltaf rétta svarið.

Þess vegna snýst þetta á endanum um að við finnum okkar eigin mörk, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór hér ágætlega yfir. Hvar eru þau mörk þar sem við segjum: Nei, hér er of langt gengið til að við getum bara látið eins og ekkert sé. Eins og ég fór yfir áðan er þetta ekki bara — nú langar mig að sletta, með leyfi forseta, „business as usual“, ég biðst forláts á enskuslettunni, ég fann ekki íslensku þýðinguna á þessu, heldur erum við hér beinlínis að tala um að stíga skref innan við ári eftir að nýr forseti tók við völdum á Filippseyjum. Hvaða forseti er þetta? Ég held að ég þurfi ekki að segja hæstv. utanríkisráðherra frá því sem Duterte hefur gert á valdastóli. Ég held að hann viti það fullvel. Hv. þm. Gunnar Hrafn Jónsson og fleiri fóru ágætlega yfir það hér áðan.

Mér finnst umhugsunarvert ef við ætlum að verðlauna þessa hegðun, því að það er þannig sem ég lít á það. Hæstv. utanríkisráðherra getur hnussað og ranghvolft augunum eins og hann vill og sýnt mér þá óvirðingu sem honum finnst eðlilegt að sýna málflutningi annarra þingmanna. Það hefur lítil áhrif á mig. Þetta er ekki svona einfalt mál. Við höfum öll okkar eigin mörk. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sýnt hver hans mörk eru gagnvart Rússlandi með því að styðja ríkisstjórn sem setti viðskiptabann þar á. Ég virði þá skoðun hans. Ég virði líka þá skoðun hans að vilja gera þennan viðskiptasamning þótt ég telji að það sé ekki rétt. Ég held að hugmyndin á bak við það að aukin samskipti og viðskipti séu til góðs sé bara góð og falleg. En ég held að hún sé ekki algild, eigi ekki alltaf við. Ég held að ef við færum í gegnum söguna — hér hafa ýmsir verið tíndir til — fyndi hvert og eitt okkar einhvern forráðamann ríkis sem við segjum um: Nei, við þennan mann hefðum við ekki samið.

Hér hefur verið talað um utanríkisstefnu Íslands, að hana skorti. Ég tek undir það. Mér finnst það dálítill ljóður á ráði Íslands í gegnum árin og áratugina, þ.e. skortur á sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við erum oft og tíðum, ef ekki oftast, með í einhverjum hópum, oft í gegnum NATO, sem við illu heilli erum enn í. Við höfum verið taglhnýtingar með einhverjum öðrum í stað þess að ryðja brautina og vísa veginn.

Ég hef þá trú, við getum kallað það barnalega og einfalda sýn, að lítið land eins og Ísland geti haft mikilvægu hlutverki að gegna í heimsmálunum, einmitt af því að það er lítið land og einmitt af því að það er lítið land eins og Ísland. Tiltölulega einangrað úti á ballarhafi, ekki með eigin her en hefur illu heilli boðið hingað erlendum herjum. Við gætum verið með sjálfstæða utanríkisstefnu mannúðar og friðar. Við gætum reynt að vera sá viti á alheimsvísu sem friðarsúlan er okkur höfuðborgarbúum hér úti í Viðey á dimmum, köldum vetrarnóttum, ef við hefðum bein í nefinu til að vera það.

Ég held ekki að viðskipti við Ísland skipti Duterte sérstaklega miklu máli, að þau myndu ekki skilja milli feigs og ófeigs hvort hann situr við völd áfram eða ekki. Ég held að það muni enginn úti í heimi lyfta brúnum yfir því að þessi fríverslunarsamningur yrði staðfestur á Íslandi. En hvernig getur lítið, „vopnlaus“, þar sem við bjóðum nú erlendum vopnum hingað, þjóð látið rödd sína heyrast þannig að eftir verði tekið? Hver yrðu sterkustu skilaboðin sem gætu haft mest möguleg áhrif í þá veru að sýna alþjóðasamfélaginu fram á að stjórnarhættir Dutertes séu ekki boðlegir? Það held ég að væri ef þessi fríverslunarsamningur yrði ekki staðfestur, ef það bærist út um allan heim að Ísland, þetta litla eyríki í norðrinu, hefði nú tekið þá sjálfstæðu ákvörðun að staðfesta ekki þennan samning.

Hver eru markmið okkar með þessum samningi? Hér hafa margir hv. þingmenn talað um að hann skapi störf. Ég veit ekki hvaða íslensku umsvif eru þar sem munu fylgja í kjölfar þessa samnings, sem munu skapa störf þar. Það þekki ég einfaldlega ekki. En ef markmiðin okkar eru líka þau, eins og sumir hv. stjórnarliðar hafa talað um, að við ætlum að koma mótmælum okkar kröftuglega á framfæri um leið og reyna að hafa áhrif á stjórnarhætti í viðkomandi landi, held ég að það sé best gert með því að einfaldlega segja: Nei, þetta líðum við ekki. Ætlum við að setjast niður og láta eins og ekkert sé og skrifa undir nýjan fríverslunarsamning innan við ári eftir að þessi forseti komst til valda með alla sína sannarlega skelfilegu hegðun á bakinu — það eru engar getgátur, og segja: Velkomin til starfa, haltu áfram þinni vinnu?

Ég held að við eigum að vera óhrædd við að láta rödd okkar heyrast, ekki bara í einhverjum mótmælum til hliðar við einhverja viðskiptagjörninga heldur með gjörningunum sjálfum. Þegar upp er staðið snýst þetta blessaða líf okkar um að vera góð hvert við annað. Um það erum við hæstv. utanríkisráðherra sammála. (Gripið fram í.)