146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Það er mér gleðiefni að standa hér og halda örstutta tölu í tilefni af því að hæstv. ráðherra, Þorsteinn Víglundsson, hefur lagt fram þetta frumvarp um jafnlaunavottun, eitt af þó nokkrum stefnumálum Viðreisnar sem rötuðu í stjórnarsáttmálann og er hér til umræðu. Ég verð samt að viðurkenna að þessu fylgja blendnar tilfinningar. Ég er nefnilega ein ef þeim, orðin nægilega gömul, sem var sem lítil stelpa dregin niður í bæ af móður minni sem tók sér frá kennslu á kvennafrídaginn, 24. október árið 1975, sem stóðu þar í brekkunni, ég horfði yfir mannfjöldann vælandi yfir því að hafa verið dregin úr hópi leikfélaga uppi í Breiðholti til þess að fara þessa ferð, og mamma sagði: Ég vil að þú sért viðstödd þegar við lögum þetta. Þarna var verið að ræða kjör og laun kvenna á vinnumarkaði.

Ég dreg enga dul á það frekar en aðrir að vissulega hefur margt áunnist. Við erum á heimsvísu með góða stöðu sem við getum verið stolt af. Þessi staða hvílir á vinnu fjölmargra sem við erum þakklát. Það breytir því ekki að ég hélt ræðu móður minnar yfir dætrum mínum fyrir nokkrum dögum þegar ég sagði þeim að fylgjast með þeirri umræðu sem hér ætti sér stað því að nú ætluðum við að breyta þessu. Ég vona innilega að þær standi ekki í þessum sporum eftir einhverja áratugi og haldi sömu ræðu.

Það eru ósýnilegar hindranir, þessar línur sem eru alltaf dregnar, sem vissulega hafa færst lengra og lengra í rétta átt. Málið er bara að núna eru þær komnar það langt að það er kominn kór sem segir: Þetta er nógu gott, við erum komin nógu langt. Við skulum vera sátt. Þetta er fínt, 5%, kommon, þetta er ekkert mál.

En þetta er mál, við erum komin lengra og nægilega gott er ekki ásættanlegt fyrir okkur lengur, ekki fyrir okkur, ekki fyrir foreldra okkar sem ruddu brautina og það er sannarlega ekki nógu gott fyrir börnin okkar, ekki fyrir stelpurnar okkar og ekki fyrir strákana okkar. Við erum að tala um sanngirni fyrir þjóðfélagið í heild, sanngjarnt, réttlátt, þjóðfélag þar sem jafnrétti ríkir.

Það má líka spyrja, eins og hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar gerði í andsvörum við hæstv. ráðherra fyrr í dag, hvort ekki væri eðlilegur farvegur fyrir svona mál að samið yrði um það á vinnumarkaði. Það getur vel verið að það sé eðlilegt, en ef svo er búum við ekki við eðlilegar aðstæður. Ég hélt að það væri fullreynt. Ég vona að þessi orð hafi ekki verið til marks um að þingflokksformaður Samfylkingarinnar líti svo á að við náum þessum síðustu skrefum með því að bíða þolinmóð.

Ég hefði alveg trúað því fyrir töluvert löngu, en ég er hætt að óska mér þegar kemur að svona málum vegna þess að hindranir á borð við óútskýrðan launamun kynja, kynbundinn launamun, hverfa ekki með óskum. Það er einfaldlega fullreynt. Þegar upp er staðið held ég að þetta verði ansi stórt mál, stærra en þessi 5–13% eða hvað það er sem rannsóknir sýna að sé enn óútskýrður kynbundinn launamunur. Þetta verður mögulega eitt þeirra mála sem ná að setja fótspor sín víðar í jafnréttis-, sanngirnis- og skynsemisátt, þetta verði tilfelli þar sem löggjafinn segir einfaldlega: Við ætlum að taka af öll tvímæli um það að við ætlum að standa við lög um jöfn laun þegar kemur að kynjunum — og kannski og vonandi á þetta eftir að ryðja brautina. Eins og komið hefur fram í tali margra sem eru jákvæðir, það kemur ekki á óvart, er þetta ekki eina málið, því miður, en þetta er kannski það mál þar sem okkur hefur tekist að mjaka hinum ósýnilegu hindrunum hvað lengst. Ef við spörkum henni burt núna, þurrkum hana út, tökum þessa ósýnilegu hindrun niður með lokaátaki, hver veit hvaða greiða við erum að gera öðrum hópum sem berjast fyrir jafnrétti.

Hugsanlega verður hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sannspár þegar hann spáir því að þetta verði eitt af stærstu málum núverandi ríkisstjórnar þegar litið verður til baka. Mér þætti það ekkert ólíklegt. Ég horfi reyndar á málið frá öðrum sjónarhóli en hv. þingmaður sem ég einhvern veginn las út þá óskhyggju hjá að önnur verk ríkisstjórnarinnar yrðu lítil. Ég held að þau eigi eftir að verða fín, fjölmörg og góð. Ég held hins vegar að þetta sé vanmetið. Ég held að þetta eigi eftir að hafa víðtækari og meiri áhrif en við gerum okkur endilega grein fyrir núna vegna þess að ef málið verður að lögum er það einfaldlega staðfesting á því að nokkuð gott ástand, jafnvel mjög gott ástand á heimsvísu, er ekki nógu gott fyrir okkur Íslendinga þegar kemur að jafnréttismálum. Það er ágætisveganesti út í þau verkefni sem fram undan eru.