146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[20:08]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur vakti athygli mína, ekki vegna þess að hér er hugsanlega verið að framselja örlítið vald til Eftirlitsstofnunar EFTA heldur vegna þess að þingmaðurinn talaði eiginlega um að framselja ákveðinn hluta af löggjafarvaldi til Fjármálaeftirlitsins, þ.e. að Fjármálaeftirlitið hefði ekki lagasetningarvald, að það hefði ekki reglugerðarvald. Reglugerðarvaldið byggist reyndar á ákvæði í lögum og það er þá Stjórnarráðið sem fer með það vald. Skil ég það rétt að þingmaðurinn ætlist til þess að leiðbeinandi tilmæli hafi reglugerðargildi? Fjármálaeftirlitið hefur heimild til þess að setja ýmis leiðbeinandi tilmæli og hefur kallað eftir þeim valdheimildum sem það telur að það þurfi. Það kemur af og til til þegar því yfirsést — og hér talar maður af reynslu sem hefur fleiri áminningar en nokkur einstaklingur frá Fjármálaeftirlitinu; ég er með tvær áminningar frá Fjármálaeftirlitinu, eina í gildi, þannig að ég þekki örlítið til. Er ég eitthvað að misskilja stjórnskipan lýðveldisins? Er Fjármálaeftirlitið farið að fara með löggjafarvald? Ég lýk máli mínu að sinni.