146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessa máls finnst mér mjög gaman að sjá það koma fyrir þing þar sem mælt er fyrir því. Þó myndi ég vilja leggja fram smábreytingartillögu til að ganga lengra, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á. Ég myndi vilja sjá að miðað yrði við þá sem yrðu 16 ára á árinu þannig að allur árgangurinn væri samtaka í að fá kosningarrétt.

Nú er ég mikill málsvari þess að reyna að útskýra hlutina á einfaldan hátt. Ég var áður starfsmaður í leikskóla. Ég hef stundum fengið það á tilfinninguna að ég myndi frekar vilja sjá fimm ára krakka hér inni en okkur. Í kjölfar þess hef ég mikið lesið það sem kallast á netinu Explain it like I´m five — útskýrið eins og ég sé fimm ára. Það er aðferðafræði sem við mættum tileinka okkur betur. Helsta gagnrýnin sem við höfum fengið, bæði á Alþingisvefinn og allt umhverfið hér, er sú að við séum einfaldlega ekki skiljanleg. Það er ekkert auðvelt að gera sig skiljanlegan fyrir fimm ára barni en þegar maður gerir það fær maður rosalega góða innsýn í það hvað er rétt. Það er það sem ég leita einna helst að, að ákveðnum siðferðislegum forsendum, að minni eigin sannfæringu. Ég met hana það gríðarlega mikils því að ég lærði hana í raun á ný eftir að ég starfaði á leikskóla. Þar lærði ég upp á nýtt hvernig það er að vera manneskja og það var mjög áhugaverð lífsreynsla.

En aftur að frumvarpinu. Ástæðan fyrir því að miða við 16 ára á árinu er sú, ólíkt því sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði um að sjálfræði og kosningarréttur ættu að fara saman, að spyrja má á móti hvort skattur og kosningarréttur ættu ekki að fara saman. Ég tek þó ekki þann pól í hæðina heldur vitna ég einfaldlega í þá vinnu sem við höfum lagt í menntakerfið okkar. Eins og hv. framsögumaður sagði eru lýðræði og mannréttindi einn af grunnþáttum menntunar. Hinir þættirnir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, jafnrétti og sköpun og síðast en ekki síst lýðræði og mannréttindi og það er mjög áhugavert hvernig þessir þættir spila saman.

Við leggjum upp í ákveðna vegferð við að mennta okkur í að verða þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Við setjum það þannig upp í aðalnámskrá grunnskóla, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.“

Þetta er gríðarlega mikilvægur punktur þar sem núverandi kosningaaldur, 18 ár — ákveðið gat er milli þess sem fólks klárar grunnmenntun þar til það fær kosningarrétt. Að meðaltali byrjar fólk að kjósa tvítugt af því að það er ekki orðið nógu gamalt, ekki alveg orðið átján ára, og kýs ekki fyrr en það er að verða 22 ára næst. Að meðaltali erum við þá í 20 ára aldri. Með þessari breytingu yrði meðalaldur nýrra kjósenda 18 ár.

Enn fremur segir í 2. gr. laga um grunnskóla, með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.“

Það er mjög skýrt að það er vilji löggjafans að stuðla að lýðræðislegra samfélagi. Það gerum við með því að leyfa fólki að taka þátt í samfélaginu. Það er þátttakan sjálf sem stýrir áhuga fólks. Ég man sjálfur eftir því að það var ekki fyrr en kom að því að ég hafði tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegum kosningum að ég fór að pæla mikið meira í því hvað ég ætti að gera við þann rétt.

Það er dálítið merkilegt í þessu samhengi að aðalnámskráin setur upp ákveðin hæfniviðmið fyrir hverja námsgrein og fyrir grunnþættina. Þar er til dæmis lýsing á hæfni nemenda við lok grunnskóla, með leyfi forseta:

„Býr yfir hæfni til að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu nær- og fjærsamfélagi“

Þetta er ekkert flóknara en það. Sá sem er að klára grunnskóla á að vera orðinn virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi. Af hverju þá ekki að leyfa þeim að taka þátt í samfélaginu? Málið þarf ekki að vera flóknara en það því að þátttakan sjálf er það sem stjórnar áhuganum.

Hér var rætt um umsagnir frá ungmennaráðum. Ég myndi vilja leggja til að grunnskólar og framhaldsskólar myndu hjálpa nemendum sínum við að senda inn umsagnir, fá persónulegar umsagnir frá þeim aðilum sem annars myndu fá kosningarrétt við þessa breytingu.

Ég legg einfaldlega til að frumvarpið verði samþykkt, klárað á þessu þingi, og að nemendum og ungmennum, sem eru tilbúin til að taka þátt í lýðræðislegu nær- og fjærsamfélagi, verði leyft að taka þátt á eigin forsendum.