146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Mér þykja nokkur tímamót að við ræðum þetta mál, ekki bara vegna þess að mál þessa efnis hafa verið lögð fram fimm sinnum á síðustu tíu árum, heldur líka vegna þess að þetta er eitt af þeim málum þar sem við erum með flutning úr öllu hinu pólitíska litrófi hér á þingi. Það gerist ekki daglega.

Við erum ekki endilega öll sammála um málið í þessum sal, en það er kannski eðlilegt þegar við tölum um kosningaréttinn, sem er væntanlega einn af þeim hlutum lýðræðisþátttökunnar sem skiljanlegast er að vera íhaldssamur gagnvart. Þess vegna virði ég alveg hv. þm. Óla Björn Kárason þegar hann setur nokkur spurningarmerki við málið. En af því að þingmaðurinn kallar eftir samræmi má ég til með að benda honum á eitt samræmi sem ég sé fyrir mér að við náum fram, verði þetta frumvarp að lögum. Stjórnmálaflokkar miða félagsaðild við 16 ár. Við treystum fólki til að taka þátt í innra starfi stjórnmála flokka við 16 ára aldur á sama tíma og við treystum því ekki til að taka hina endanlegu ákvörðun í kjörklefanum fyrr en það er 18 ára. Þarna er reyndar eitt örlítið ósamræmi, það er einn flokkur sem miðar við annan aldur, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hleypir fólki inn 15 ára og er þar náttúrlega skrefi á undan okkur hinum.

Það er hægt að renna yfir listann um hvenær fólk má hvað og sjá alls konar hluti sem ekkert er samræmi í. Við megum taka próf á skellinöðru 15 ára þótt við megum ekki keyra fyrr en við erum 17, við fáum skattkort og förum að borga skatt 16 ára þótt við megum ekki kjósa þá sem ráðstafa því skattfé fyrr en tveimur árum síðar. Það er kannski bara eðlilegt í samfélagi fólks sem ekki er excel-skjöl heldur lífverur og hefur þess vegna myndað lífrænt samfélag.

Ég er einn af þeim sem eru nýir á þingi og tók fyrst þátt af alvöru í kosningabaráttu nú í haust. Ég náði nógu ofarlega á lista til að ég þætti þess virði að vera sendur á alvöruviðburði. Ég tek heils hugar undir með þeim sem nefnt hafa skuggakosningar framhaldsskólanna sem eitt af því kraftmesta og skemmtilegasta sem við tókum þátt í í kosningabaráttunni, þar sem við mættum ungu kjósendum, sem var samt bara hálfur hópurinn, hálfur hópurinn voru ungir kjósendur og hinn helmingurinn voru þeir tveir árgangar í framhaldsskólunum sem ekki hafa kosningarrétt. Þarna voru góðar umræður og beittar spurningar sem beint var að okkur frambjóðendum. Eitt af því sem ég lærði þarna, bara hvernig maður hagar sér sem frambjóðandi eftir að hafa fengið endurgjöf frá vini í salnum eftir einn af þessum fundum, var að á fyrsta fundinum talaði ég við unga fólkið í salnum um unga-fólks-mál, sem var náttúrlega alger feill, sem ég hef nú lært af. Þetta unga fólk hafði náttúrlega spurningar um allt í stjórnmálum. Þeim á að svara.

Þetta er fólk sem er ekkert endilega skilgreint út frá því hversu gamalt það er heldur hefur það ólíkar skoðanir og ólík áhugasvið. Og það á að hafa rödd sem við eigum að hlusta á. Við erum skuldbundin til þess samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum fullgilt, að taka tillit til sjónarmiða barna og ungmenna þegar við tökum ákvarðanir í þessum sal. Við gerum það ekki nógu oft. Við sendum mál ekki nógu oft til umsagnar ungmennaráða eða annarra félagasamtaka þar sem ungt fólk kemur saman. Nema þegar það snertir nákvæmlega unga-fólks-málin. Við sendum ekki breytingar á heilbrigðiskerfinu til umsagnar ungs fólks. Tökum dæmi. Ekki var kallað eftir sjónarmiðum ungs fólks varðandi styttingu framhaldsskólans á sínum tíma, sem þó hefði augljóslega mátt gera til að fá sjónarmið notenda þjónustunnar.

Það er nokkuð sem við sem þing þurfum að læra, alveg óháð því hvernig þetta mál endar, en við lærum það væntanlega miklu fyrr ef fyrstu tveir árgangar kjósenda eru jafnframt börn. Þá erum við ekki bara að tala um börn og ungmenni sem hluta af samfélaginu heldur bókstaflega hluta þeirra sem komu okkur hingað, hluta þeirra sem veittu okkur umboð sitt til að sitja á Alþingi. Og þó að það sé kannski ekki mest „glamúrös“ hugmyndin um lýðræðið að við hugsum meira um þá sem standa á bak við okkur, um þá sem greiddu okkur atkvæði í kosningum, held ég að það geti skipt máli hjá sumum. Ég held að það geti hjálpað okkur sem 63 manna málstofu að muna eftir þessu unga fólki, ekki bara þegar við mætum í framhaldsskólana til að ræða við það fyrir kosningar í skuggakosningum.

Komið hefur verið inn á það í fyrri ræðum að það þurfi eitthvað að gera til að auka þátttöku fólks, sérstaklega ungs fólks, í kosningum. Það er náttúrlega dálítið bagalegt að það hafi ekki verið fyrr en 2014 sem við fórum að mæla kosningaþátttöku eftir aldri. Við vitum því ekki nákvæmlega hver þróunin er. En við höfum vísbendingar um hana í íslensku kosningarannsókninni eins og komið hefur fram. Kúrfan tekur snögga dýfu undir þrítugu. Kosningaþátttaka fólks undir þrítugu er nokkuð mikið lægri en þeirra sem eldri eru. Við vitum náttúrlega ekki hver hún yrði hjá þeim sem eru á milli 16 og 18 ára. En mögulega yrði hún betri. Mögulega yrði kosningaþátttakan þar enn meiri en í hópunum þar rétt fyrir ofan því að við sjáum á kúrfunum sem komu út úr síðustu þremur kosningum að á árunum tveimur fyrir tvítugt er örlítið meiri þátttaka í kosningunum en árin þar strax á eftir. Mögulega heldur sú kúrfa áfram að hækka fram til 16 ára aldurs, því að við finnum alltaf þegar við hittum þetta unga fólk að það hefur brennandi áhuga á samfélagsmálum þótt það finni ekki hjá sér tenginguna við skipulögð stjórnmál. En það er verkefni okkar að vinna úr því.

Að lækka kosningaaldurinn er ekki eina rétta lausnin til að auka þátttöku í kosningum en getur verið hluti af lausninni vegna þess að í grunnskólum fer fram öflugt starf í lýðræðisfræðslu, ekki bara með sérskipulögðum tímum sem heita lýðræðisfræði, heldur með því að iðka lýðræði í skólastarfinu. Það eru mýmörg dæmi um hvað það hefur heppnast vel, alveg frá yngstu nemendum grunnskólanna.

Hér áðan var nefnt nemendaþing Grunnskólans á Ísafirði, sem fengið hefur verðlaun fyrir að virkja allan skalann innan skólans þar sem nemendurnir setjast niður og ræða málefni skólans með þjóðfundarsniði. Fleiri skólar eru með góða reynslu af sambærilegum þingum sem eru ýmist árvissir eða reglulegir viðburðir. Eftir stutta gúglun get ég nefnt Brekkuskóla, Salaskóla, Hlíðarskóla og Oddeyrarskóla, Kelduskóla, Bláskógaskóla, Áslandsskóla og Grunnskólann í Stykkishólmi, til viðbótar við Grunnskólann á Ísafirði sem nefndur var hér áðan. Og það að nemendur innan skólans setjist saman og ræði málefni skólans ásamt þeim fullorðnu sem þar starfa, ræði sig saman til niðurstöðu og sjái að á þá er hlustað, skiptir gríðarlegu máli að sögn þeirra sem taka þátt í þessu. Það er það sem lækkun kosningaaldursins sendir líka skilaboð um. Börn 16–18 ára eru ekki bara eitthvert fólk úti í bæ heldur er þetta fólk sem við hlustum á. Fjórða hvert ár hlustum við á atkvæði þess. Þess á milli hlustum við líka á það.

Ég held að stjórnmálin hafi gott af þessu. Ég held að lýðræðið í víðu samhengi hafi gott af þessari breytingu. Og ég held að í framhaldinu þurfum við að skoða alla hina angana af þessu, hvort við getum við lok þessa kjörtímabils breytt stjórnarskrá til að lækka kosningaaldurinn til Alþingis og forsetakosninga, hvort við ættum að skoða þjóðaratkvæðagreiðslur eða íbúakosningar sveitarfélaga, eins og nefnt var í umræðunni áðan. Við þurfum líka að huga að því hvaða sess lýðræðisfræðslan hefur innan skólakerfisins þannig að hún sé tryggð í öllum grunnskólum, sem var eitt af því sem fram kom í samtölum okkar nokkurra flutningsmannanna með ungmennum að væri stundum misbrestur á. Þó eru grunnskólarnir betur settir en framhaldsskólarnir sem eftir styttingu eru farnir að skera niður allar greinar og allt það sem ekki flokkast undir innsta kjarna skólastarfsins. Þá er sótt á lýðræðisfræðsluna eins og margt annað sem flokkast undir jaðar í skólakerfinu. Við þurfum að snúa þessu við í framhaldsskólakerfinu, styrkja lýðræðisfræðslustoðina í grunnskólakerfinu. Þannig gæti þetta haft þau áhrif að 16 ára ungmenni sem koma úr grunnskóla þar sem lýðræði innan skólans er virkt og þau fá þar að auki góða fræðslu um það stjórnmálakerfi sem þau eru að fara að taka þátt í sem kjósendur 16 ára að við náum á þeim tímapunkti þegar þau útskrifast úr grunnskóla að grípa þau á þessari bylgju þar sem þau eru nýkominn úr því sem er væntanlega dýpsta lýðræðisfræðsla skólagöngunnar. Þau verði strax virkir þátttakendur frekar en að þurfa að bíða í að minnsta kosti tvö ár eftir því að verða 18 ára. Þá munu þau, þessir 9.000 nýju kjósendur, hafa góð áhrif á stjórnmálaflokkana og samfélagið þegar þeir fara að hlusta.