146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:48]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þar sem ég sat í þingflokksherbergi okkar Viðreisnarfólks og var að undirbúa mál mitt þá greip mig skyndilega þörf til að fara til Mosfellsbæjar, eins og gerist stundum, þannig ég ákvað að kanna þær leiðir sem voru í boði og fór til þess á þekkta síðu, sem heitir Google Maps, og sló þá það inn að ég væri staddur við Austurvöll og ætlaði mér til Mosfellsbæjar. Þá komu upp tveir möguleikar; annars vegar var mér boðið að keyra þangað á bíl og það tæki 22 mínútur, og eins gat ég labbað þangað og samkvæmt Google Maps tekur það mig þrjá klukkutíma og 17 mínútur. Lagt er til að fara eftir Suðurlandsbrautinni og síðan eftir nýju göngubrúnum við Geirsnef, í Grafarvog og síðan fram hjá golfvelli Mosfellsbæjar, þannig muni ég komast. Þessir tveir kostir stóðu mér til boða. En ég veit að það eru fleiri kostir sem mér standa til boða. Ég veit að ég get hjólað þetta, og hef gert það, og ég veit að ég get einnig tekið strætó þessa leið, ég hef líka gert það. Ef ég hefði gert sambærilega leit í Kaupmannahöfn eða öðrum mörgum evrópskum stórborgum og Bandaríkjum hefðu mér líka staðið þessir tveir kostir til boða. Ég hefði líka fengið leiðbeiningu um hvernig ég gæti hjólað þessa leið eða notað almenningssamgögur.

Hver er ástæða þess að þessir tveir flipar í íslenskri kortaútgáfu Google Maps eru gráir og ekki í boði? Ég veit það ekki alveg. Ég hef engar nákvæmar upplýsingar um það, en mig grunar stundum að ástæða þess sé í mörgum tilfellum skortur á nægilega góðum grunnupplýsingum sem eru opnar og aðgengilegar.

Ég hef verið í þeirri stöðu að þurfa að nota upplýsingar sem eru almenningseign að einhverju leyti og það er alltaf einhver forgangsröðun sem fyrirtæki sem nota slíkar upplýsingar fara í. Hún byggist oft á þremur þáttum. Í fyrsta lagi þurfa upplýsingarnar að vera markaðslega gagnlegar, það er nú oftast ástæðan fyrir því að í öllum þeim kerfum sem ég nefni eru stórar borgir í Bandaríkjunum oftast nær þær fyrstu þar sem notendur geta notað slíka þjónustu, þar er alla vega góður markaður fyrir slíka þjónustu. Í öðru lagi er nauðsynlegt að upplýsingarnar séu að einhverju leyti tæknilega nytsamlegar. Og í þriðja lagi þurfa þær að vera endurnýtanlegar út frá lagalegu sjónarmiði. Það verður sennilega aldrei þannig að markaðurinn Ísland verði sá markaður sem maður fer fyrst inn á, en við getum gert okkar til að gera hina hlutina vel, af því að þrátt fyrir allt hefur það jákvæð áhrif á lífsgæði okkar að geta nálgast sambærilegar upplýsingar um Ísland sem víðast. Það hefur líka áhrif á hvaða ferðakosti ferðamenn nota, svo ég nefni það.

Hér er oft rætt um verð sem einn þátt í þessu máli, það er sá þáttur sem hér hefur verið lögð hvað mest áhersla á, að ákvörðun og tímasetning — að upplýsingarnar verði gerðar gjaldfrjálsar, en það er ekki eina sem skiptir máli og raunar er ekki síður mikilvægt hvernig réttindamálum af þessum gögnum er háttað.

Hér er um ákveðna tvíræðni að ræða, vegna þess að annars vegar er um að ræða lög um Landmælingar og hins vegar höfundalög, sem eru enn þá mjög íhaldssöm, ef svo má að orði komast. En sem betur fer, og verður að árétta það, hefur verið unnið mjög gott verk innan ramma þeirra laga í átt að því að gera gögnin sannarlega opin og aðgengileg.

Ef ég gríp hérna niður í lagagrein sem fjallar um það sem má í þeim lögum sem við leggjum til að verði breytt, þetta er 6. gr., síðari málsgrein, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Heimilt er að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar sem getið er í 1. mgr. og eru í vörslu Landmælinga Íslands að því tilskildu að uppruna sé getið og að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður.“

Þessi lagagrein er líklegast smíðuð í kringum þá hugmyndafræði að menn veiti þann rétt í hvert skipti til eins og eins aðila. En hins vegar hefur verið farið í gegnum þessi mál og þeim breytt með þeim hætti að Landmælingar Íslands hafa gefið út notkunarskilmála á heimasíðu sinni þar sem byggt er á svokölluðu „Open Government Licence“, eða opnu ríkisleyfi, fengið að breskri fyrirmynd þar sem hið lagalega umhverfi er að einhverju svipað. Þar er tilgreint að í raun veiti Landmælingar Íslands öllum leyfi til að endurnýta upplýsingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eitt þessara skilyrða er að Landmælinga sé getið sem heimildar. Ég sé ekki að lagaáskilnaðnum um að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður sé einhvers staðar fundinn staður.

Þegar maður lítur á þessar greinar frá tæknilegu sjónarmiði koma þrjár vangaveltur upp í hugann. Í fyrsta lagi segir að þetta sé heimilt, en þar ætti í rauninni að standa „veita skal“, þ.e. að veita skuli afnotarétt af öllum upplýsingum. Í öðru lagi er krafan um að geta uppruna skiljanleg út frá hefðbundnum höfundarréttarlagapælingum. En reyndin í dag er að þetta er ekki alltaf jafn auðvelt og menn ímynda sér. Til dæmis byggja heilu gagnasöfnin á gögnum sem byggja á gögnum sem byggja á gögnum. Í þeim tilfellum er ekki mjög auðsótt að geta allra þeirra frumheimilda með einföldum hætti. Reyndin er sú í þessum geira að það er miklu frekar orðið vandamál í hina áttina. Stofnanirnar reyna eftir fremsta megni að passa upp á að þeir sem endurnýta upplýsingar birti t.d. ekki merki viðkomandi stofnunar, því að oftast nær eru þeir sem nota slíkar upplýsingar í hagnaðarskyni að reyna að sýna að þeir noti þekktan uppruna til þess að lyfta gæðum þeirrar þjónustu sem þeir veita, hvort sem viðskiptavinirnir greiða fyrir það eða ekki.

Ákvæðið um að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður tel ég að sé óþarft. Ég held að ekkert af því sem hér er nefnt séu stór atriði sem muni valda að því að taka þurfi á þessu við breytingu laganna í þessari umferð, enda vil ég ekkert gera til þess að tefja framganginn. En ég veit að áreiðanleikarökin hafa einhvern tímann verið notuð, ekki af Landmælingum, en af öðrum stofnunum sem hafa veigrað sér við að leyfa fólki að nota áfram upplýsingar sem eru á þeirra vegum, með þeim rökum að við getum ekki tekið ábyrgð á því ef notendur nota upplýsingarnar vitlaust. Þar finnst mér fólk hafa svolítið vonda nálgun við opnun gagna.

Ég hef ekki áhyggjur af afkomu einkaaðila í kortageiranum eða öðrum, verði þetta frumvarp að veruleika. Niðurstaðan hefur verið sú að víðast þar sem gögn hafa verið opnuð hefur hið öfuga gerst, gróska hefur orðið í viðkomandi geira. Menn hafa einfaldlega tekið gögnin, unnið saman gögn frá ólíkum uppruna, „pakkað“ þeim upp á nýtt og selt, oft með ágætum hagnaði. Til dæmis er mikið af upplýsingum sem Bloomberg-fréttaveitan og -gagnaveitan hafa upplýsingar sem hægt væri að nálgast ókeypis í gegnum ríkisuppruna, „ríkis-source“. En engu að síður er þarna búið að búa til þjónustu þar sem einhverju er bætt ofan á þetta.

Ég hef ekki áhyggjur af þeim þætti og styð efni þessa frumvarps.