146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:59]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta að ég hef ekkert á móti því að einkaaðilar geri hluti sem Landmælingar gera í dag, óháð því hvort Landmælingar halda áfram að gera þá hluti. Mér finnst engin mótsögn fólgin í því að styðja að hvort tveggja verði gert. Ég er almennt lítið hlynntur einhvers konar einkaleyfum til ríkisstofnana, sérstaklega hvað svona hluti varðar. Ef það er hins vegar þannig að ríkisstofnanir, opinberir aðilar, safni upplýsingum sem geta nýst öðrum finnst mér algjörlega sjálfsagt að það eigi að vera meginreglan að þær upplýsingar séu birtar. Hver veit hvað einhver getur gert sniðugt við þær?

Svo að ég komi aðeins aftur inn á Google Maps söguna, af því að hæstv. ráðherra nefndi það, þá er það stundum þannig að maður sér ekki þá hluti sem ekki verða. Vissulega gætum við farið í einhvern leiðangur og reynt að komast að því af hverju hin og þessi veita þjónustar ekki höfuðborgarsvæðið með sama hætti og hún þjónustar borgir í öðrum löndum. Stundum er það bara þetta aðgengi fyrir fram sem ræður þessu. Það eru einfaldlega einhverjir forritarar eða markaðsmenn hér og þar sem fara í gegnum það hvaða skref eru möguleg næst. Þeir velja sér oft það skref þar sem það er tæknilega auðveldast að útfæra þær lausnir sem menn vilja og þar sem engin lagaleg hindrun virðist vera fyrir því að nota þau gögn sem eru til staðar.