146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

framlög til framhaldsskólanna.

[14:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það er gaman þegar menn fara með gamanmál hér í ræðustól. En hv. þingmaður spurði hvort ég væri stoltur af því að hækka framlag á hvern nemanda. Já, vissulega er ég stoltur af því. Ég er stoltur af því að nú verður hægt að búa skólana betur tækjum. (LE: Af hverju skrifaðir þú þá í fjármálaáætlun að það væri ekki hægt?)(Gripið fram í: Það er bara einn ræðumaður.) (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti ítrekar að það er sá þingmaður eða hæstv. ráðherra sem stendur í ræðustól Alþingis sem hefur orðið og biður hv. þingmenn enn og aftur um að virða þá reglu og vera ekki í samtölum við ræðumann.)

Það er nú bara þannig að verið er að hækka þessi framlög á hvern nemanda. Það hlýtur auðvitað að vera betra fyrir nemendurna að það sé meiri peningur á bak við hvern um sig. Það er ekki verið að styrkja húsið, ekki einhverja ópersónulega stofnun, það er verið að stuðla að betra námi. Fyrir hvern? Fyrir nemendurna. Það fjallar ekki um hvaða form er nákvæmlega á því, ég tek alveg undir það. Aðalatriðið er hvort nemendur standa betur fyrir eða eftir og þeir standa betur eftir að þessi nýja (Forseti hringir.) fjármálaáætlun verður samþykkt.