146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir áminninguna, því að ég var á leiðinni þangað með fyrirspurnina. Það er ákveðin þensla, eins og hefur oft komið fram, hér á höfuðborgarsvæðinu en kannski minni úti á landsbyggðinni. En þessi rútufyrirtæki sem eru að koma með Norrænu byrja væntanlega þar. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi kannski einhver dempandi áhrif á þenslu úti á landi vegna þess að þjónustan er væntanlega meiri þangað, alla vega í rútuferðunum. Þá veltir maður fyrir sér hvort og hvert útsvarið skilar sér, ef þjónustan er að mestu leyti til veitt úti á landi en kemur frá Norrænu. Ég veit ekki hvernig fyrirtækin staðsetja sig sem koma hingað með erlenda starfsmenn eða hvernig því er háttað. Þetta held ég að sé mjög áhugaverð spurning og nauðsynleg fyrir sveitarfélögin. Fá þau útsvar sitt af tekjum þeirra starfsmanna sem eru að koma hingað? Ég sé það ekki í fljótu bragði.

Við fengum þetta þingskjal klukkan fjögur og þetta eru sextíu og eitthvað blaðsíður, maður er að komast í gegnum þetta allt smám saman. Það lýsir, held ég, vandamálinu við að koma svona frumvarpi inn á síðustu stundu, sérstaklega svona stóru, að það eru alltaf að koma nýjar og nýjar upplýsingar í ljós af því maður hefur haft minni tíma til að undirbúa sig fyrir svona mál. Þetta er eitthvað sem mér finnst alveg augljóslega vera stór hola í málinu ef það vantar að svara þessum spurningum.