146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[17:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Landhelgisgæslan á sér gróinn sess í huga landsmanna sem treysta henni best allra opinberra stofnana í landinu. Um það bil fimm sinnum fleiri treysta betur Landhelgisgæslunni en okkur sem hér störfum á þessari góðu stofnun, hinu háa Alþingi, samkvæmt könnunum Gallup. Þetta traust hefur Landhelgisgæslan áunnið sér með góðum verkum og öguðum vinnubrögðum. Gæslan hefur til umráða dýran, sérhæfðan búnað, skipakost og flugflota, og fram undan er tími endurnýjunar og það eru góð og brýn áform, en endurnýjun þurfa að fylgja efndir um að styrkja rekstrarumhverfi Gæslunnar.

Fréttir af verkefnum Landhelgisgæslunnar tengjast hin síðari ár æ oftar verkefnum í lofti, björgunarstörfum á þyrlum og ekki síst í tengslum við slys og flutninga á sjúklingum, jafnvel á milli landshluta, þótt verkefni á sjó hafi borið hróðurinn víða, bæði við strendur Íslands og á fjarlægari sjó.

Íslendingar höfðu framan af árum takmarkaða trú á þyrlunotkun á Íslandi. Þær hafa sannað ágæti sitt við okkar aðstæður og talsverður fjöldi af þyrlum er hér í notkun og af ýmsum stærðum. Sjúkraflug á Íslandi hefur lengi verið mikilvæg þjónusta en brotakennd. Samið hefur verið við smærri flugfélög um þjónustuna og markmið um öryggi hefur ekki alltaf staðist þegar á hefur reynt. Fyrirkomulag sjúkraflutninga þarf að vera í föstum skorðum en veikleikar eru í núverandi kerfi. Miðstöð sjúkraflugsins á Akureyri hefur bætt úr.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra, rétt eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, hvort könnuð hafi verið hagkvæmni þess að fela Landhelgisgæslunni formlegra og stærra hlutverk í þessari þjónustu, þ.e. sjúkraflutningum í lofti, með styrkingu flugflota, aðallega þó þyrlum, sem þyrftu að vera af stærð sem hentar, til dæmis með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóðanna. Viðbúnaður, reynsla og þekking eru fyrir hendi, þjónustan er veitt nú þegar og möguleiki til hagræðingar virðist ekki fjarlægur í ljósi samlegðar. (Forseti hringir.) Er ekki eðlilegt að hugað sé að því að þessi hluti sjúkra- og neyðarþjónustu hins opinbera sé samræmdur og hafður á einni hendi, hjá Landhelgisgæslunni?