146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kynsjúkdómar.

471. mál
[18:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna í dag sem er ekki aðeins undir þessum dagskrárlið heldur fleirum. Það er klárlega spurning um fræðslu og snemmbært inngrip þegar um kynsjúkdóma er að ræða hjá ungu fólki. Þótt heilsugæslan gegni vissulega mikilvægu hlutverki skulum við muna það að á heilsugæslunni tekur á móti þessum ungu konum og körlum læknir sem er líka læknir pabba og mömmu. Það er ekki endilega sá sem menn vilja hitta til þess að ræða um kynsjúkdóma eða kynheilbrigði almennt.

Það er þess vegna sem annars staðar á Norðurlöndunum hafa verið settar upp sérstakar ungmennamóttökur sem þjónusta ungmenni frá 14–23 ára aldurs. Það var það sem Alþingi samþykkti að ætti að koma hér upp í tilraunaskyni fyrir sléttum fimm árum.

Ég vil taka undir það hjá hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur að mjög mikilvægt er að smokkar verði ókeypis. Það er lykilatriði í baráttunni gegn kynsjúkdómum.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti verið að klamydíuprófið (Forseti hringir.) sem er notað í heilbrigðisþjónustu sé einfaldlega of dýrt fyrir þá sem koma til þess að taka það?