146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er svolítið sérstakt að vera að ræða núna í þingsal um fátækt þegar kannski allir mælikvarðar benda til þess að við stöndum okkur einna best alls staðar. Ekki það að menn eigi ekki að ræða almennt um þá sem hafa bágust kjörin, auðvitað eigum við alltaf að ræða um það. Þetta er svolítið sérstakur tímapunktur. Þegar maður rifjar upp, fer til baka, þá hef ég upplifað að þessi umræða kemur sirka á tíu ára fresti. Og af hverju kom hún núna allt í einu? Jú, hún verður til í kringum stofnun enn eins sósíalistaflokksins þar sem menn trúa því einhvern veginn að … (Gripið fram í.) (LRM: Virðingarleysi gagnvart þessari umræðu.) Nei, það er ekki, ég er bara að segja: Af hverju er hún núna? (Gripið fram í: Orsök og afleiðing.) (Gripið fram í: Ætti vera á hverjum einasta degi.) Nei. (Gripið fram í: … fátæku fólki.) Þetta virkar auðvitað bara á mann eins og tækifæri núna til að koma sér á framfæri. (Gripið fram í: Æ, æ.) Þannig er það. (Gripið fram í: Hvað ert þú að gera?) Ég er bara að segja frá því, ég er að segja frá því hvernig þetta er vegna þess að það er þessi trú sem maður finnur enn þá hér í salnum. (Gripið fram í: Fólk eigi ekki að vera fátækt?) Nei. (Gripið fram í: Banna það bara.) Leyfið mér að halda ræðuna, voðalega eruð þið viðkvæm.

(Forseti (UBK): Forseti verður að biðja hv. þingmenn að gefa hljóð.)

Voðalega eruð þið viðkvæm. Það er þessi trú margra í þessum sal að þar sem gengur vel, eru öflugir atvinnuvegir og kraftur og arður, sé verið að taka af hinum og við erum að gera þau fátæk. Þetta er inntakið í umræðunum, maður skynjar það. Það breytir því ekki að það er alltaf ákveðinn hópur sem við þurfum að hugsa um og gæta að í hvert sinn sem verður einhverra hluta vegna (Forseti hringir.) svolítið milli skips og bryggju. Tökum umræðuna um það hvað við getum gert akkúrat við þá (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að umræðan fari alltaf í þann farveg að hér eru einhverjir vondir sem taka peningana af okkur, hinum fátæku.