146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

416. mál
[23:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flutningsmanni fyrir að leggja þetta fram. En mig langar að spyrja hann hvort honum þyki gengið nógu langt með því, hvort ekki mætti íhuga að ganga jafnvel lengra og fella niður þá ábyrgðarkeðju sem myndast hefur þar sem nú er búið að afnema kröfu um ábyrgðarmenn. Væri ekki ráð að fjarlægja bara ábyrgðarmenn yfir höfuð út úr kerfinu, í stað þess að láta þá detta út við 67 ára aldur myndi ríkið ekki geta gerst svo rausnarlegt að taka út ábyrgðarmenn fyrst við þurfum ekki á þeim að halda lengur? Væri hv. þingmaður opinn fyrir því ef það yrði niðurstaða nefndarinnar?