146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

frádráttarbær ferðakostnaður.

159. mál
[11:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Síðustu ár og áratugi hafa þéttbýliskjarnar stækkað auk þess sem samgöngur hafa víða batnað. Samhliða því hafa miklar breytingar orðið á þróun byggða og atvinnusvæða. Fólk jafnt í skilgreindu þéttbýli sem dreifbýli hefur í síauknum mæli leitað í störf í nágrannabæjum og sveitarfélögum þannig að skilgreiningar og hugmyndir um atvinnusvæði hafa verið að breytast. Þessi þróun hefur leitt af sér sífellt stækkandi atvinnusvæði og lengri ferðir til og frá vinnu.

Þessi þróun er jákvæð og styrkir byggðir landsins en vandamál fylgja einnig stækkandi atvinnusvæðum og ferðum fólks langar leiðir í og úr vinnu. Nauðsynlegt er að unnið verði að því að auka vægi almenningssamgangna á hverju atvinnusvæði fyrir sig en þar er víða pottur brotinn. Ljóst er að á sumum atvinnusvæðum er engum almenningssamgöngum til að dreifa og um langan veg að fara í og úr vinnu.

Á undanförnum þingum hafa hv. þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram tillögur til að koma til móts við ferðakostnað einstaklinga vegna ferða til og frá vinnu en málið hefur ekki náð fram að ganga. Ein meginástæðan fyrir því er að umrædd aðgerð er samkvæmt umsögnum ákveðinna aðila sögð flækja skattkerfið.

Vegna þessa virðist kerfið sem ætlað er að þjóna hagsmunum landsmanna þjóna kerfinu sjálfu.

Tillaga okkar hv. þingmanna Framsóknarflokksins kveður á um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og leggi fram á Alþingi frumvarp til laga sem feli í sér heimild til hæstv. ráðherra til að útfæra og setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu, óháð ferðamáta, innan tiltekinna skilgreindra atvinnusvæða innan lands, verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Í framhaldinu útfæri hæstv. ráðherra og setji slíkar reglur.

Þetta mál var endurflutt á yfirstandandi þingi en náði ekki fram að ganga. Það er örlítil breyting að umrædd tillaga nær til fleiri samgöngumáta en bifreiða. Sú fyrirmynd er m.a. sótt til Danmerkur. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. samgöngu- og byggðamálaráðherra, því að hér er um að ræða byggðaaðgerð ef þetta næði fram að ganga, hvort hann sé hlynntur þeirri byggðaaðgerð sem ég ræddi hér að ofan.

Spurning mín til hæstv. byggðamálaráðherra er því: Er hann hlynntur þeirri byggðaaðgerð að kostnaður við ferðir til og frá vinnu verði frádráttarbær frá tekjum áður en til skattlagningar kemur? Þannig gætum við styrkt dreifð atvinnusvæði og ákveðna byggðafestu hér á landi, sem er afar mikilvægt.