146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Jú, ég hef einmitt lesið þessa umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar og þá gagnrýni sem þar kemur fram. Eins og bent hefur verið á kemur þessi virðisaukaskattshækkun til viðbótar virðisaukaskattshækkun á síðastliðnu ári og gengisstyrkingu og er að öllu leyti illa útfærð, engar greiningar liggja til grundvallar, hvað þá samráð við greinina. Ég velti því fyrir mér líka hvort með því að hafa bara samráð við greinina og hugsanlega bíða með gildistöku þessarar hækkunar hefði verið hægt að ná breiðari sátt um þessa aðgerð og taka einmitt tillit til þeirra þátta sem hv. þingmaður nefndi varðandi áhrifin á minni aðilana, sér í lagi minni aðila á landsbyggðinni sem eru fjær höfuðborgarsvæðinu. Þetta mun, eins og fram kemur í umsögn 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, koma niður á minni aðilunum þegar til lengri tíma er litið.