146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu sína. Margt áhugavert kom þar fram. Mig langar aðeins að spyrja nánar út í þessar tölur. Ég verð að játa að ég klóra mér enn í kollinum yfir því hvernig koma á öllu heim og saman innan þessarar fjármálaáætlunar sem við ræðum. Ég sé ekki betur en að útgjaldasvigrúm dómstólanna sé tæplega 300 millj. kr. Almanna- og réttaröryggið — svigrúmið er lítið, um 700 millj. kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Þegar kemur að réttindum einstaklinga, trúmálum og stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis er um að ræða útgjaldasvigrúm upp á 375 millj. kr. Þetta eru svo hlægilegar tölur að ég hélt fyrst að þær væru einfaldlega prentvilla. En hvað telur hv. þingmaður að þetta þýði í raun fyrir þessa málaflokka? Það er augljóst að þetta eru ekki upphæðir sem hægt er að gera mikið fyrir.