146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Öll þurfum við á þinginu að sinna ýmsum fundum úti í bæ, annars staðar í þinghúsinu eða í nálægum húsum. Ég var sjálfur að vinna í nefndaráliti hér afsíðis en að sjálfsögðu fylgist maður áfram með umræðunni. Það að þurfa að vinna er ekki góð afsökun fyrir því að geta ekki unnið. Það verður aldrei.

Kannski er ástæðan fyrir því að stjórnarmeirihlutaþingmenn eru svona fátíðir í salnum í þessari umræðu hreinlega bara sú að þegar maður lítur yfir þessar 140 blaðsíður af nefndarálitum og umsögnum kemur í ljós sú saga að það er bara ekki mikill stuðningur við þessa fjármálaáætlun. Það virðist vera þannig að stjórnarmeirihlutaþingmenn treysta sér ekki til að segja hreinlega nei, eins og þeir ættu að gera, við fúskinu og þessum ömurlegu fyrirætlunum. En þeir þora heldur ekki að tala máli sínu vegna þess að mál þeirra er hreinlega (Forseti hringir.) að þetta er lélegt.