146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Hún var einmitt ágætlega uppbyggð og gott að fylgja henni eftir. Ég tek undir með henni, sérstaklega það sem hún sagði um álit umboðsmanns Alþingis. Ég hefði t.d. viljað að formaður fjárlaganefndar kæmi í andsvar við hana og ræddi stöðu málsins, hver staðan er raunverulega, af því að ég veit að það er verið að vinna að því og hefði verið áhugavert að fá það fram hér.

Hv. þingmaður hefur mikla peningalega þekkingu og ræddi töluvert í sinni ræðu um sviðsmyndagreiningar og annað slíkt sem við höfum mikið kallað eftir. Mig langar að fara yfir það með henni hvernig hún sér það fyrir sér af því að nú gerir ríkisfjármálaáætlun ráð fyrir samdrætti í skatttekjum og samt er verið að boða uppbyggingu innviða. Hér er verið að boða skattalækkanir eins og við þekkjum og var líka gert í tíð síðustu ríkisstjórnar sem hv. þingmaður átti sæti í. Síðan talaði hv. þingmaður um gengisstyrkinguna. Ég spyr hana: Hvaða leið telur hún að sé best til þess að mæta þessari gríðarlegu gengisstyrkingu? Hvert eigum við að fara í því?

Síðan langar mig að spyrja hana líka, af því að hún ræddi um ferðaþjónustuna, um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sér hún fyrir sér t.d. þrepaskipt gistináttagjald? Sæi hún fyrir sér að við gætum skipt því á milli ríkis og sveitarfélaga og þá með hvaða hætti? Ég sjálf tel það afar mikilvægt að við finnum aukna tekjustofna til handa sveitarfélögunum. Þetta hefur verið eitt af því sem hefur verið nefnt í því sambandi.