146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að fara yfir að stórum hluta umsögn 4. minni hluta atvinnuveganefndar sem var óskað eftir af fjárlaganefnd um þá fjármálaáætlun sem hér er til umræðu. Ég tel mjög mikilvægt að nefndirnar hafi fengið þetta mál til umsagnar til þess að kryfja það betur til mergjar. Það var gert í atvinnuveganefnd. Við fengum fjölda gesta undir þau málasvið sem falla undir atvinnuveganefnd og það var mjög gagnlegt. Ég ætla að byrja á því að fara aðeins yfir þá umsögn sem sú sem hér stendur skrifar undir og fara í lokin almennt inn á þessa óburðugu fjármálaáætlun sem okkur er boðið upp á til næstu fimm ára.

Það eru ýmsir vankantar á framsetningu áætlunarinnar. Ég held að margir séu sammála um að það sé handvömm. Það er spurning um þá framsetningu þegar ruglað er saman fjárfestingum og rekstrarfé. Þetta truflar yfirsýn og að menn nái að átta sig á innan málasviða hvað sé hvers í þeim efnum. En það getur samt engum dulist að markmið þessarar fjármálaáætlunar er að draga saman í rekstri hins opinbera. Nægir í því samhengi að vísa til umfjöllunar um samneyslu þar sem kemur fram að stefnt er að samdrætti í samneyslu á gildistíma áætlunarinnar. Áform um þróun skatttekna og tryggingagjalds segja sömu sögu. Þetta þarf að sjálfsögðu ekki að koma á óvart þegar litið er til þeirrar eindregnu hægri stefnu sem stjórnvöld fylgja í opinberum fjármálum. Það vekur hins furðu að um leið og lýst er fyrirætlunum um samdrátt í tekjuöflun hins opinbera eru látin í ljós áform um mikla innviðauppbyggingu án þess að með fylgi trúverðugar áætlanir um fjármögnun þeirra framkvæmda sem krefjast mikilla fjárútláta.

Fjárþörf þeirra stofnana sem haft var samráð við vegna fjármálaáætlunar endurspeglast ekki í áætluninni og fulltrúar þeirra segja að það hafi ekki verið nægilegt samráð um forgangsröðun verkefna. Er því augljóst að ýmis þeirra verkefna sem opinberar stofnanir hafa haft með hendi munu ekki rúmast innan hins þrönga ramma fjármálaáætlunar. Blasir því við að fækka þurfi verkefnum og starfsfólki í mörgum tilfellum. Þá eru dæmi um að verkefni séu flutt til stofnana sem heyra undir málefnasvið atvinnuveganefndar án þess að gert sé ráð fyrir fjárveitingum í samræmi við það í fjármálaáætlun.

Þetta ósamræmi varð Samtökum atvinnulífsins tilefni til þess í umsögn sinni um tillöguna að vekja athygli á skorti á stefnumörkun og framtíðarsýn í fjármálaáætluninni. Bent er á það af hálfu samtakanna að áætlun um fjármögnun uppbyggingar innviða skorti framtíðarsýn. Það kæmi ekki í ljós hvort menn stefndu til aukins einkarekstrar eða opinberra framkvæmda. Það þyrfti að liggja fyrir. Ég get alveg tekið undir það. Það er falið og undirliggjandi, ekki er hægt að sjá hvort menn ætli að útvista fleiri verkefnum í einkarekstur eða hvort opinberir aðilar eigi að sjá um framkvæmdirnar og það sé undir opinberum aðilum. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort það sé skilyrði af hálfu stjórnvalda fyrir fjárveitingum úr sameiginlegum sjóðum til sameiginlegra verkefna að einkaaðili eigi þess kost að taka hlut þeirra til sín og hvort fullt samkomulag sé um það meðal stjórnarliða.

Það er líka óásættanlegt að ekki skuli gert ráð fyrir útgjöldum vegna skuldbindinga Íslands vegna loftslagsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Það málefnasvið sem fellur undir atvinnuveganefnd, rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, heyrir undir tvo ráðherra og á við um starfsemi Vísinda- og tækniráðs, samkeppnissjóði í rannsóknum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Einkaleyfastofu. Allur þorri þeirrar starfsemi sem tilheyrir málefnasviðinu er tengdur þekkingaröflun og nýtingu þekkingar og stuðlar þannig að uppbyggingu og þróun í samtíð og framtíð. Má nefna að meðal þess sem rannsóknir og þróun beinast að eru áskoranir sem við samfélagi okkar blasa í umhverfis- og loftslagsmálum. Er því mjög mikilvægt að vel sé hlúð að þessum sjóðum. Miðað við áherslu sem lögð er á nýsköpun, rannsóknir og markaðsmál þá er mikil þörf á að styrkja enn frekar samkeppnissjóði, fé til rannsókna og aðra sjóði sem falla undir nýsköpun og styrki til frumkvöðla og vísinda. Veruleikinn er sá að sjóðirnir anna engan veginn þeirri eftirspurn sem er til staðar og árlega þarf að hafna góðum og fullburða umsóknum sem gætu skilað sér margfalt til baka til samfélagsins. Því miður virðist verið að draga úr fjármunum, eins og á næsta ári, til þessara sjóða. Aukningin fyrir þau fjögur ár sem eru þá eftir er einungis um 120 milljónir.

Ég vil aðeins koma inn á landbúnaðinn, en það hefur kannski ekki verið mikið talað um hann hérna. Ég lýsi miklum áhyggjum yfir ýmsum starfsgreinum sem falla undir búvörusamninginn sem er til endurskoðunar. Við þekkjum það að landið er nú miklu opnara fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum en það hefur hingað til verið. Fulltrúar Vinstri grænna hafa varað við auknum innflutningi á ferskum kjötvörum til landsins vegna smithættu sem stafað getur af slíkum innflutningi og er með því tekið undir ábendingar og rök dýralækna og sóttvarnalæknis í þeim efnum. Það er ljóst að það er mjög mikil hagræðingarkrafa innifalin í búvörusamningunum og óvissa um hvaða áhrif hún hefur á landbúnaðinn og einstakar greinar eins og fækkun búa og samþjöppun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, sem á auðvitað í miklum erfiðleikum, sérstaklega sauðfjárrækt á jaðarsvæðum. Ekkert liggur heldur fyrir varðandi tollasamninginn þegar hann tekur gildi, hvaða áhrif hann kann að hafa á innlenda landbúnaðarframleiðslu og stöðu einstakra greina. Ekki sér þess stað að fara eigi í neitt markaðsátak með íslenskt lambakjöt eða veita sérstakan stuðning við sauðfjárbú á jaðarsvæðum og í brothættum byggðum landsins. Þetta tel ég vera áhyggjuefni.

Varðandi sjávarútveginn og fiskeldi liggur ekkert fyrir um hver auðlindagjöld verða í þessum greinum. Við vitum í dag að þessar útflutningsgreinar, sérstaklega þegar í hlut eiga minni fyrirtækin, eiga í miklum vanda vegna sterks gengis krónunnar. Því miður blasir við mörgum þessara fyrirtækja að þurfa að leggja upp laupana ef fram fer sem horfir, minni fyrirtækjum sem hafa ekki þann sterka bakhjarl sem stóru risarnir hafa í sjávarútvegi. Þar eru blikur á lofti.

Aukning í þennan málaflokk varðandi rannsóknir og eftirlit er sáralítil. Eftirlitsstofnun eins og Matvælastofnun hefur fengið til sín fjölda verkefna á liðnum árum sem krefjast mannafla og fjármuna. Stofnunin er upp fyrir haus í verkefnum en hefur ekki fengið nægt fjármagn. Í fjármálaáætlun virðist stofnunin annaðhvort standa frammi fyrir því að sinna ekki verkefnum sem skyldi, eins og dýravelferð, dýraeftirliti og fiskeldi, eða að segja upp starfsfólki. Það má benda á að Matvælastofnun hefur eftirlitsskyldu með 6.000 aðilum.

Svo er það Hafrannsóknastofnun. Hún hefur lengi búið við fjársvelti og til hennar eru gerðar miklar kröfur. Það er óásættanlegt að þessi stofnun sé fjársvelt eins og við þekkjum og þurfi jafnvel að treysta á fjármagn frá útgerðaraðilum til að fjármagna brýnar rannsóknir á fiskstofnum og lífríki sjávar. Þetta er eitthvað sem við getum ekki búið við þar sem þjóðin á svo mikið undir því að Hafrannsóknastofnun hafi bolmagn til að stunda rannsóknir í þessum stóra atvinnuvegi okkar sem skilað hefur okkur miklum hagnaði og er burðarbiti í okkar samfélagi, hryggjarstykki. Ekki er gert ráð fyrir nýju rannsóknarskipi en það gamla, Bjarni Sæmundsson, er nær 50 ára gamalt. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar vegna fiskeldis. Það er ekki eðlilegt að stofnunin hafi þurft á liðnu ári að sækja um í umhverfissjóð sjókvíaeldis til þess að geta staðið undir rannsóknum.

Fiskistofa þarf meira fjármagn. Hún er líka í miklum vandræðum. Þetta eru burðarstofnanir sem er óásættanlegt að þurfi að standa frammi fyrir því að geta ekki sinnt því mikla hlutverki sem þeim er falið.

Þá er það ferðaþjónustan. Hún hefur verið mjög mikið rædd hér og ekki skrýtið, þetta er sú atvinnugrein sem hefur tekið stökk fram á við og er komin í það að vera stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og skapa mestan gjaldeyri. Hringlandinn í kringum ferðaþjónustuna hefur verið ótrúlegur. Það hefur verið mikil gagnrýni á þau áform að hækka virðisaukaskattinn og þar sé mjög mismunandi staða innan greinarinnar. Það er mjög gagnrýnivert að ekki hafi verið haft samráð við Samtök ferðaþjónustunnar eða aðra fulltrúa greinarinnar um fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts. Það vantar alla greiningu á áhrifum skattbreytingarinnar og stefnumótun í málefnum ferðaþjónustunnar. Það verður að vera einhver fyrirsjáanleiki í ferðaþjónustu sem og öðrum atvinnugreinum.

Ég hef miklar áhyggjur af því að ferðaþjónustufyrirtæki utan stórhöfuðborgarsvæðisins geti lent í miklum vanda, þau sem hafa verið að reyna að fara út í auknar fjárfestingar til þess að byggja sig upp á heils árs grunni eða lengja ferðamannatímabilið frá því að vera rúmir þrír mánuðir í að vera hálft ár eða jafnvel ár. Maður hefur fengið mörg símtöl á þann veg að menn óttast að það sé of þungur biti að keyra vaskinn svona upp með þetta litlum fyrirvara. Greinin úti á landi þurfi meira svigrúm til að byggja sig upp og það verði að fara varlega ef menn ætli sér að reyna að dreifa ferðamönnum víðar en hér á stórhöfuðborgarsvæðinu, það er mikil áníðsla á viðkvæm ferðamannasvæði og náttúruperlur á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu og það þurfi að beina fólki þangað þar sem er ekki þessi mikla áníðsla en miklir möguleikar á að byggja upp ferðaþjónustu ef vel er staðið að málum og þannig njóti allir landshlutar þess að það koma ferðamenn til landsins. Þá þarf að fylgja öflug innviðauppbygging, sem er bara ekki til staðar og hefur ekki verið nægjanlega hugsað fyrir. Við sitjum uppi með þetta allt í fanginu. Þessi fjármálaáætlun ber þess ekki merki að það eigi að gera neitt átak í þeim efnum sem þarf svo virkilega að gera ef það á að anna þessum mikla ferðamannastraumi sem er kominn hátt á þriðju milljón, sem er auðvitað gífurlegur fjöldi, og hætta á að við förum illa út úr því ef ekkert er að gert.

Þá að orkumálum. Það er metnaðarfull tillaga um orkuskipti í áætluninni. En það virðast ekki fjármunir að neinu gagni fylgja henni. Það er ekki hægt að bjóða upp á slíkt. Menn tala um að fara í framkvæmdir eins og rafvæðingu hafna og að 40% af orku verði frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2030. Ef við ætlum að byrja að feta þessa leið þurfa fjármunir að fylgja og þeir skila sér örugglega aftur.

Ég sé að tími minn flýgur eins og hann gerir yfirleitt. Það er erfitt að láta hlutina standa í stað þótt maður vildi nú gjarnan að þeir gerðu það þegar maður er kominn á þennan aldur. (Gripið fram í: Alltaf þegar það er gaman.) Alltaf þegar er gaman þá flýgur tíminn. En hann gerir það eiginlega alltaf þegar maður er kominn á besta aldur.

Ég er mjög ósátt við þessa fjármálaáætlun. Þetta er eitthvað sem við erum öll að læra inn á og ég held að allir vilji reyna að vanda sig og þetta sé plagg sem við getum sammælst um að sé áætlun til fimm ára. En stjórnarmeirihlutinn hefði auðvitað átt að leggja sig fram við að reyna að gera þetta í meiri sátt við alla, allt þingið. Með eins manns meiri hluta er það bara eðlileg, lýðræðisleg krafa að menn vinni þetta meira saman, rammann, að það þurfi ekki alltaf að vera þessi miklu átök í gangi. Það þarf meiri sveigjanleika. Þessi stranga fjármálaregla, sem felur bæði í sér að greiða hratt niður skuldir og aðhaldskröfu í rekstri upp á 2%, getur orðið mikil spennitreyja fyrir samfélagið. Og samfélagið er mjög ólíkt, íslenskt samfélag, gerólíkt eftir svæðum. Það eru bara mörg efnahagssvæði eins og ég hef kannski sagt ansi oft úr þessum ræðustól. Manni svíður að þegar menn telja sig vera á toppi einhverrar öldu, hagsveiflu og efnahagslegra gæða, þá nái það aldrei út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið í framkvæmdum. Það má aldrei gera neitt úti á landi. Þegar gengur vel þarf að koma í veg fyrir ofþenslu og þá er yfirleitt byrjað á að draga saman opinberar framkvæmdir á landsbyggðinni. Og þegar illa gengur er landsbyggðin auðvitað aftast í rútunni. Hún er yfirleitt afgangsstærð. Við verðum sem samfélag að reyna að hafa eitthvert jafnræði í fjárfestingum. Kannski það eina sem ég tók eftir sem mér fannst vera gáfulegt hjá formanni fjárlaganefndar (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] var að það ætti að greina landið eftir efnahagslegri stöðu, hvernig efnahagur og hagsæld væri mismunandi milli landsvæða. Ég held að það sé löngu orðið tímabært. Þau svæði sem eru brothættari og veikari fái, ég segi ekki ölmusugjafir, en þau eiga fullan rétt á því að samfélagið þar sé fært fram á 21. öldina. Allir hafa borgað sína skatta og skyldur í gegnum árin. Við eigum að leggja metnað í að vera öll nokkurn veginn á sömu blaðsíðu, þó ekki væri annað en í sömu bók Íslandssögunnar, úti á landi þar sem byggðirnar eru veikar. Auðvitað eru sumar byggðir nokkuð sterkar eins og stór-Eyjafjarðarsvæðið, svo ég nefni það. En við erum langt á eftir annars staðar og viljum ekki að hluti landsins sé í þannig spennitreyju að hann hafi aldrei neina möguleika á að rífa sig upp og að ungt fólk sjái ekki tækifæri í að koma (Forseti hringir.) út á land á þessi svæði til að byggja upp samfélagið með menntun sinni og þekkingu. (Forseti hringir.)

En ég bið um að setja mig aftur á mælendaskrá því ég finn að ég er rétt að hitna upp núna.