146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt og skemmtileg ræða hjá hv. þingmanni. Við erum nú greinilega ekki sammála um allt en getum verið sammála um sumt. Hins vegar vefst svolítið fyrir mér sú breytingartillaga sem liggur frammi frá fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd og ég geri ráð fyrir að það sé í nafni Vinstri grænna eða þingmanna Vinstri grænna, þar sem lagt er til að heildarskattheimta, samtals verði skattar hækkaðir hér á tímabili fjármálaáætlunarinnar um 334 milljarða. Mig langar til að vita hverjir svona megindrættirnir eru. Þeir koma ekkert fram. Þetta er bara tala, á bilinu 50 og upp í 70 milljarðar á hverju ári. Svona megindrættirnir, hvaða skattar eru þetta? Eru þetta einhverjir nýir skattar eða er verið að hækka tekjuskatt á einstaklinga eða virðisaukaskatt á ferðaþjónustu? Hvað er þetta?

(Forseti (JSE): Forseta láðist að nefna að fjórir hv. þingmenn hafa óskað eftir að veita andsvar og verður ræðutími því styttur í eina mínútu í hvert skipti.)