146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:28]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvarið. Það er rétt að velferð barna og ungmenna verður að hafa að leiðarljósi varðandi allar þær ákvarðanir sem teknar eru. Ég tek alveg undir að Barnaverndarstofa vinnur á faglegum forsendum. Nú í dag tíðkast það mjög og er reynt eftir fremsta megni að nýta úrræði utan meðferðarheimila til að koma til móts við þarfir þessara einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Þar má nefna PMTO, ART og ég er sérstaklega ánægð að við náðum því, allir hv. nefndarmen í velferðarnefnd, að koma ART inn sem breytingartillögu. Síðan er það MST-þjónustan sem er jafnframt utan meðferðarheimila. Það var mjög mikilvægt að ná því inn á landsvísu. Ég fagna því verulega.

Ég er sammála því að það er mjög mikilvægt að hv. velferðarnefnd komi saman og skoði þau mál mjög vel og að við fáum svör við því hvort þetta meðferðarheimili sé verið að nýta eins og skyldi eða ekki, að við förum mjög gaumgæfilega ofan í það. Markmiðið með þeirri vinnu okkar allra er að tryggja að þessir einstaklingar fái þjónustu í samræmi við þarfir sínar og stöðu. Það hefur einmitt komið fram að þótt núna tíðkist þjónusta utan meðferðarheimila, eins og PMTO og ART og MST, er það í mörgum tilfellum svo að þegar einstaklingar eru komnir inn á meðferðarheimilin hafa þeir farið í gegnum þessi úrræði en þau hafa ekki dugað til og þá þarf að grípa til annarra úrræða.